Fimm einstaklingar voru handteknir hér á landi 12. desember í tengslum við viðamikla alþjóðlega rannsókn á skipulagðri glæpastarfsemi sem teygði sig til Íslands. Þar af voru þrír úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Ætluð brot snúa að innflutningi og framleiðslu á fíkniefnum, peningaþvætti og fjársvikum.
Þetta kom fram á blaðamannafundi sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og embætti tollstjóra boðuðu til í Rúgbrauðsgerðinni í Reykjavík í dag þar sem greint var frá aðgerðinni sem íslensk yfirvöld tóku þátt í og var að stórum hluta framkvæmd hér á landi. Einnig komu að aðgerðinni lögregluyfirvöld í Póllandi og Hollandi, Evrópulögreglan Europol og Eurojust, stofnun Evrópusambandsins sem beitir sér gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Um samræmdar aðgerðir var að ræða sem fóru allar fram 12. desember. Þrír voru handteknir í Hollandi. Í öllum tilfellum er um að ræða pólska ríkisborgara.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, greindi frá þessu og ennfremur að nokkur önnur mál hafi verið til rannsóknar hér á landi þar sem nokkrir pólskir ríkisborgarar hafi einnig verið handteknir. Sigríður sagði að yfir 90 starfsmenn lögreglunnar og tollgæslunnar hefðu komið að rannsókn málsins hér á landi.
Fulltrúar á fundinum voru auk Sigríðar Bjarkar Lucasz Folta og Kamil Bracha frá pólsku rannsóknarlögreglunni, Snorri Olsen tollstjóri, Alinde Terstegen frá Eurojust og Zoltan Nagy frá Europol. Lögðu þau öll áherslu á mikilvægi milliríkjasamstarfs lögreglu þegar komið hafi að því að upplýsa málið.