„Boltinn er hjá ríkinu“

Sjúkrabílar landsins eru í eigu Sjúkrabílasjóðs Rauða krossins.
Sjúkrabílar landsins eru í eigu Sjúkrabílasjóðs Rauða krossins. mbl.is/Hjörtur

„Boltinn er hjá ríkinu. Ef ráðuneytið vill færa rekstur sjúkrabíla úr höndum Rauða krossins yfir til ríkisins eða einkavæða, þá vinnum við með þá stöðu en fyrst og fremst þarf að taka ákvörðun. Þetta óvænta útspil ríkisins fyrir rúmu ári um breytt eignarhald var ekki rökstutt og hefur ekki verið útfært nánar. Við viljum taka samtalið við nýjan ráðherra, ræða eignarhaldið og uppgjör við Rauða krossinn komi til þess að ríkið vilji hætta samstarfinu,” segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins, um samning um rekstur sjúkrabíla sem hefur ekki verið endurnýjaður í rúm tvö ár.  

Árið 2015 rann út samn­ing­ur ríkisins og Rauða krossins um end­ur­nýj­un og rekst­ur sjúkra­bíla. Sjúkrabílarnir eru í eigu Sjúkrabílasjóðs Rauða kross­ins sem jafnframt sér um rekstur þeirra. Slíkir samningar hafa verið í gildi í um 90 ár. Kristín tekur fram að sjúkrabílarnir eru ekki reknir í ágóðaskyni og engin teikn á lofti um að breyting verði á því, ef samningurinn verði endurnýjaður.

Haustið 2016 þegar samningur var nánast í höfn kom óvænt útspil frá ráðuneytinu um að bílarnir skyldu vera í eigu ríkisins. Þetta ár var Kristján Þór Júlí­us­son heil­brigðisráðherra en hann gegndi embætt­inu á ár­un­um 2013 til 2017.

„Við vorum að taka lokið af pennanum þegar þetta óvænta útspil kom. Þetta kom eins og þruma úr heiðskýru lofti og útboð á sjúkrabílum hefur strandað á þessu. Við höfum ekki fengið nein frekari svör við því hvernig ríkið hyggst útfæra nýtt fyrirkomulag,“ segir Kristín. Bæði Rauði krossinn og Sjúkratryggingar Íslands sem sáu um samningagerð fyrir hönd ríkisins hafa upp frá því þrýst á ráðuneytið um frekari svör og skýringar á útfærslu á eignarhaldi en ekkert fengið.

Óttarr Proppé tók við heilbrigðisráðuneytinu árið 2017 og engin svör fengust frá ráðuneytinu á þeim tíma, að sögn Kristínar.   

Bjartsýn á fund með nýjum ráðherra í janúar

„Við eigum fund í byrjun janúar með heilbrigðisráðherra og erum bjartsýn á að ná góðu samtali við nýjan ráðherra,“ segir Kristín.

Hún bendir á að þrátt fyrir að sjúkrabílaflotinn sé að eldast þá er hann ekki orðinn úreltur. Á árunum 2014 til 2016 varð talsverð endurnýjun á bílunum en meðalaldur þeirra er orðinn 9 ára en gott er að hafa hann um sex ára. „Það er samt engin hætta á ferð en það er meira álag á sjúkrabílum, fjöldi útkalla hefur aukist og innviðir eru þandir. Þetta er líka landsbyggðarmál því við viljum tryggja öryggi allra íbúa á landinu,“ segir Kristín.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins.
Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins. Ljósmynd/Sigurður Óalfur Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert