Ásakanirnar ekki nafnlausar

Kristín Eysteinsdóttir Borgarleikhússtjóri.
Kristín Eysteinsdóttir Borgarleikhússtjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Leikaranum Atla Rafni Sigurðarsyni var ekki vikið frá störfum í Borgarleikhúsinu vegna nafnlausra ásakana á hendur honum. Verið var að bregðast við tilkynningum, þar á meðal frá starfsfólki leikhússins.

Kristín Eysteinsdóttir leikhússtjóri Borgarleikhússins greinir frá þessu í samtali við RÚV.

Atli Rafn sagði frá því yfirlýsingu í gær að brottreksturinn hafi komið til vegna nafnlausra ásakana á hendur honum og að honum hafi ekki verið greint frá ásökununum.

Atli Rafn Sigurðarson.
Atli Rafn Sigurðarson. mbl.is/Árni Sæberg

Kristín segir að Atli Rafn hafi verið upplýstur um eðli tilkynninganna. Þær hafi borist beint til leikhússtjóra meðal annars frá starfsfólki. Leikhússtjóri, framkvæmdastjóri og stjórn Leikfélags Reykjavíkur hafi verið einhuga um ákvörðunina sem hafi verið tekin að vandlega ígrunduðu máli.

Í svari við fyrirspurn mbl.is segir Kristín að það sem hún hafi um málið að segja komi fram í svari sínu til RÚV. Hún hyggist ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert