Hættir sem leikhússtjóri

Jón Páll Eyjólfsson, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar.
Jón Páll Eyjólfsson, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Jón Páll Eyjólfsson, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, hefur sagt starfi sínu lausu frá 1. janúar vegna þess hve lítið fjármagn leikhúsið fær frá bæjaryfirvöldum á Akureyri. Segir hann skorta skilning á mikilvægi LA sem hreyfiafls í bæjarfélaginu meðal bæjarstjórnarmanna.

Jón Páll greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni í opinni færslu. Þar kemur fram að hann hafi gegnt starfinu um þriggja ára skeið.

„Mér var falið að breyta rekstri og umgjörð LA í takt við rekstur undir nýju sameiginlegu félagi, Menningarfélagi Akureyrar. Lögð var áhersla á að ná tökum á framleiðslu leikfélagsins þannig að sannarlega væri framleidd sviðslist eftir kröfum samnings MAk við Akureyrarbæ en að ekki væri farið fram úr fjárheimildum til framleiðslu og reksturs leiklistarsviðs.

Á þessum þremur árum hefur tekist að standast þær væntingar með ráðdeild og frábæru starfsfólki og listamönnum. Á sama tíma var okkur gert að móta framtíðarsýn fyrir atvinnuleikhús á Akureyri undir merkjum Leikfélags Akureyrar og tryggja samfellda starfsemi þess enda á félagið hundrað ára sögu af sjónleikjum, listviðburðum og er algerlega samofið sögu leiklistar á landinu öllu.

Á vordögum 2017 lauk stefnumótunarvinnu með því að Leikfélag Akureyrar kynnti ýtarlega og markmiðssetta stefnu til ársins 2020. Skýrt var að minni hálfu að stefnan skyldi liggja til grundvallar nýjum samningi Akureyrarbæjar við MAk til þriggja ára. Enda stefnan samþykkt af stjórn MAk og kynnt opinberlega. 

Nú þegar liggja fyrir drög að nýjum samningi er ljóst að ekkert af þessum markmiðum mun nást fyrir 2020. Ekki verður kleift né hagkvæmt að fastráða neina leikara. Leikfélagið mun einungis hafa bolmagn til þess að framleiða þrjú verkefni á næsta leikári svo fremi sem verkefnin séu smá í sniðum og fámenn,“ segir meðal annars í færslunni á Facebook.

Hann segir að tekju- og áhorfendaspár fyrir yfirstandandi leikár LA séu að standast og ríflega það með ótrúlegri velgengi Kvenfólks og jólasýningu Stúfs, Stúfur snýr aftur auk þess sem kostnaðaráætlanir vegna framleiðslu hafa staðist eða verið undir áætlun.

„Ég taldi að öll þessi jákvæðu teikn ásamt því sögulega tækifæri að gera LA kleift á hundrað ára afmæli þess tryggja samfellda starfsemi til framtíðar væri nægur hvati fyrir fulltrúa okkar í bæjarstjórn til þess að leiðrétta þann skort sem hefur verið á framlögum til leikfélagsins í nærri 10 ár samfleytt og gera LA kleift að ná yfirlýstum markmiðum.

Hinn nýi samningur afhjúpar hins vegar skort á skilningi á mikilvægi LA sem hreyfialfs í okkar samfélagi og þau djúpu og dýrmætu áhrif það hefur á lífsgæði okkar og möguleika barna okkar til auðugs og hvetjandi lífs.

Hann afhjúpar skort á vilja til þess að stefna sú er tryggt getur áframhaldandi samfellda starfsemi atvinnuleikhús undir merkjum LA geti orðið að veruleika. Samningurinn hafnar því þeirri framtíðarsýn hvers mótun ég leiddi í samstarfi við fulltrúa úr stjórn MAk og Leikfélags Akureyrar. Ég mun því segja starfi mínu lausu sem leikhússtjóri LA frá og með 1. janúar 2018,“ segir enn fremur á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert