Neitar sök í Hagamelsmáli

Khaled Cairo við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Khaled Cairo við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/​Hari

Khaled Cairo, 38 ára gamall Jemeni sem ákærður er fyrir morðið á Sanitu Brauna á Hagamel í september, neitar sök í málinu. Þetta kom fram við þingfestingu þess í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Fram kom í máli Vilhjálms Vilhjálmssonar, verjanda mannsins, við þingfestinguna að sakarneitunin beindist fyrst og fremst að því að hann teljist hafa verið ósakhæfur á verknaðarstundu. Þá fer hann einnig fram á frávísun bótakröfu.

Cario naut aðstoðar túlks sem túlkaði yfir á ensku fyrir hann, en áður hafði ákæran sjálf verið þýdd yfir á arabísku fyrir hann.

Vilhjálmur sagði við þingfestinguna að atburðarásinni og verknaðarlýsingunni sjálfri væri ekki endilega mótmælt, en tók þó fram að við skýrslutökur hefði Cairo tekið fram að hann telji sig ekki hafa orðið valdan að dauða Sanitu í ljósi þeirra áverka sem orsökuðust af árás hans. Ljóst er því að aðalmeðferð málsins mun að miklu leyti snúast um sakhæfi Cairo og dánarorsök frekar en hvort eða hvernig árásin hafi verið.

Óskað var eftir því að kvaddir yrðu til tveir yfirmatsmenn til að meta sakhæfi hans og er áformað að fá það á hreint í dag og dómfesta málið á morgun þegar gengið hefur verið frá því að finna yfirmatsmennina. Saksóknari mótmælti ekki að fundnir yrðu yfirmatsmenn. Vilhjálmur sagðist aftur á móti ekki gera ráð fyrir að skila greinargerð í málinu.

Gangi skipun yfirmatsmanna eftir á morgun er gert ráð fyrir því að mat þeirra liggi fyrir ekki síðar en mánaðamótin janúar-febrúar. Ætti aðalmeðferð að hefjast stuttu síðar.

Cairo mætti til dómsals í morgun án þess að hylja andlit sitt sem algengt er þegar menn eru leiddir af lögreglu í dómsali. Virkaði hann rólegur þegar hann hlýddi á þýðandann fara yfir með honum það sem fór fram í dómsalnum.

Í ákæru máls­ins kem­ur fram að maður­inn hafi slegið Sanitu ít­rekað í and­lit og höfuð með tveim­ur til þrem­ur gler­flösk­um og slökkvi­tæki sem var tæp­lega 10 kíló.

Þá er hann sagður hafa hert kröft­ug­lega að hálsi henn­ar, en allt þetta or­sakaði það að Sanita „lést vegna rösk­un­ar á blóðstreymi til heila vegna margra högg- og skurðáverka á höfði sem ollu mörg­um áverk­um á hör­undi, brot­um á höfuðkúpu og kúpu­grunni ásamt blæðingu inn­an höfuðkúpu auk þess sem hún hlaut punkt­blæðing­ar í táru og glæru augn­loka og í inn­an­vert munn­hol og blæðing­ar í hálsvöðva.“

Ákært er á grund­velli 211. grein­ar al­mennra hegn­ing­ar­laga, en sú grein fjall­ar um mann­dráp. Er lág­marks­refs­ing und­ir þeirri grein 5 ár, en að há­marki ævi­langt fang­elsi.

„211. gr. Hver, sem svipt­ir ann­an mann lífi, skal sæta fang­elsi, ekki skem­ur en 5 ár, eða ævi­langt.“ 

Í einka­rétt­ar­kröf­um fara for­eldr­ar og þrjú börn Sanitu fram á að fá þrjár millj­ón­ir hvert í miska­bæt­ur, sam­tals 15 millj­ón­ir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert