Tveir dómskvaddir yfirmatsmenn hafa verið fengnir til að annast yfirmat á sakhæfi Khaled Cairo, 38 ára gamals Jemena, sem ákærður er fyrir morðið á Sanitu Brauna á Hagamel í september.
Við þingfestingu í málinu í gær neitaði hann sök í málinu. Fram kom þá að sakarneitun Cairo beindsit fyrst og fremst að því að hann teljist hafa verið ósakhæfur á verknaðarstundu. Þá fer hann einnig fram á frávísun bótakröfu.
Óskaði verjandi mannsins eftir því að kvaddir yrðu til tveir yfirmatsmenn til að meta sakhæfi hans, en bíða þurfi með staðfestingu á því til dagsins í dag. Saksóknari mótmælti ekki að fundnir yrðu yfirmatsmenn. Staðfest var í dag að það væru þær Lára Björgvinsdóttir og Nanna Briem sem væru yfirmatsmenn.
Stefnt er að því að yfirmat liggi fyrir ekki síðar en mánaðarmótin janúar-febrúar. Ætti aðalmeðferð að hefjast stuttu síðar.