„Afstaða Íslands hefur verið mjög skýr, við styðjum þessa tveggja ríkja lausn þar sem staða Jerúsalems verður á endanum leyst með samningum á milli Ísraela og Palestínumanna,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, í samtali við mbl.is.
Ísland studdi ályktun Sameinuðu þjóðanna þar sem ákvörðun Trumps Bandaríkjaforseta um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels er fordæmd. Ályktunin var tekin fyrir á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag.
Frétt mbl.is: Höfnuðu ákvörðun um Jerúsalem
Guðlaugur Þór segir afstöðu Íslands vera í samræmi við það sem hann hafi áður sagt, það er að ákvörðun Trumps um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels kynni að skaða friðarviðræður Ísraela og Palestínumanna. „Við höldum áfram að hvetja til stillingar og fordæmum allt ofbeldi,“ segir Guðlaugur Þór.
Frétt mbl.is: Áhyggjufullur yfir ákvörðun Trumps
Ályktunin var samþykkt með atkvæðum 128 þjóða. 8 þjóðir, auk Bandaríkjanna, greiddu atkvæði gegn henni, og 35 þjóðir sátu hjá. Ríkin átta sem greiddu gegn ályktuninni eru Guatemala, Hondúras, Tógó, Micronesia, Nauru, Palau og Marshall-eyjar.
Meðal þjóða sem sátu hjá eru Argentína, Ástralía, Kanada, Króatía og Tékkland.
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ, segir að niðurstaðan muni ekki hafa áhrif á ákvörðun Bandaríkjanna um að flytja sendiráð sitt frá Tel Aviv til Jerúsalem.
Atkvæðagreiðslur á allsherjarþinginu eru ekki bindandi en ályktanir sem fá yfirgnæfandi stuðning hafa mikið pólitískt vægi.