Mikið tjón í eldsvoða í Mosfellsbæ

Níu slökkviliðsmenn unnu að slökkvistarfinu í nótt.
Níu slökkviliðsmenn unnu að slökkvistarfinu í nótt. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Töluvert mikill eldur kom upp í innbyggðum bílskúr í einbýlishúsi í Mosfellsbæ upp úr klukkan fjögur í nótt. Í skúrnum voru m.a. gaskútar. Mikið tjón hlaust af eldinum en skemmdirnar eru einskorðaðar við bílskúrinn. Slökkviliðsmönnum tókst að koma í veg fyrir að eldurinn bærist í íbúð hússins.

Samkvæmt upplýsingum slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu voru níu slökkviliðsmenn frá tveimur stöðvum sendir á staðinn í nótt. Þá var töluvert mikill eldur og reykur í bílskúrnum.

Fyrirfram var vitað að gaskútar væru inni í skúrnum og var því gripið til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir að þeir spryngju.

Það tókst og nokkuð greiðlega gekk að ráða niðurlögum eldsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert