Þingfundur stóð yfir á Alþingi frá því klukkan rúmlega 11 í morgun og lauk rétt fyrir miðnætti. Á dagskránni var önnur umræða um fjárlög ársins 2018. Fundi lauk á atkvæðagreiðslu um breytingartillögur við fjárlögin.
Allar breytingartillögur meirihluta fjárlaganefndar voru samþykktar en allar breytingartillögur minnihluta nefndarinnar voru felldar.
Við tekur stutt jólafrí þingmanna, en nefndarfundir eru á dagskrá þingsins 27. desember og næsti þingfundur verður fimmtudaginn 28. desember.
Nokkrum lagafrumvörpum nýrrar ríkisstjórnar var fleytt áfram til þriðju umræðu fyrir hádegi, þar á meðal frumvarpi um lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar fyrir fatlað fólk. En aðalefni dagsins voru fjárlög ársins 2018 og hófst sú umræða í hádeginu.
Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Framsóknarflokksins kynnti breytingartillögur meirihluta fjárlaganefndar við fjárlögin. Umfangsmestu breytingartillögur meirihlutans, með tilliti til útgjalda ríkisins, eru meðal annars þær að framlög til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni verði aukin um 450 milljónir frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.
Einnig leggur meirihluti fjárlaganefndar til að 755 milljónum verði veitt til þriggja samgönguverkefna. 480 milljónum verði veitt í að leggja bundið slitlag á veginn um Skriðdal, 200 milljónum til endurbóta á Grindavíkurvegi með tilliti til umferðaröryggis og 75 milljónir renni til almenningssamgangna á landsbyggðinni.
Meirihlutinn lagði til 166 milljóna króna hækkun á framlagi til heimilisuppbótar örorkulífeyrisþega sem búa einir og að framlag til NPA, notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar verði hækkað um 70 milljónir.
Þá lagði meirihlutinn til að framlög til stjórnmálaflokka verði 362 milljónum hærri en gert var ráð fyrir í frumútgáfu fjárlaganna. Formenn allra flokka á þingi nema Pírata og Flokks Fólksins styðja þessa tillögu, en verði hún samþykkt óbreytt fá stjórnmálaflokkar lands alls 648 milljónir króna úr ríkissjóði á næsta ári.
Heildarútgjaldaaukning ríkisins samkvæmt breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar yrðu rúmir 2 milljarðar króna og áætlaður afgangur af rekstri ríkissjóðs yrði rúmlega 33,1 milljarður króna, í stað 35,1 milljarðs, sem áætlaður var í fyrstu útgáfu fjárlaganna.