Pétursbúð hefur bjargað jólunum hjá mörgum fjölskyldum. Opið hefur verið í versluninni á jóladag síðastliðin níu ár og var dagurinn í dag engin undantekning þar á. Fjölmargir lögðu leið sína í verslunina frá því að hún var opnuð í morgun og segir Baldvin Agnarsson, sem á Pétursbúð ásamt eiginkonu sinni, að hann hafi meira að segja fengið símtal ofan af Akranesi um hvort opið væri því viðkomandi þurfti nauðsynlega að komast í búð fyrir kvöldið. Pétursbúð reyndist vera sú búð sem var opin, og stysta vegalengd frá, en Pétursbúð er þó á Ránargötu í miðbæ Reykjavíkur.
„Það eru níu ár síðan við byrjuðum á þessu. Þeir sem hafa komið eru allir rosalega þakklátir að við séum með opið,“ segir Baldvin en hann stóð vaktina í dag ásamt fjölskyldunni; börnum og tengdabörnum. „Við vorum sex í dag. Fjórir á kassa og tveir að fylla á og fylgjast með að allt sé í röð og reglu. Fyrst þegar við byrjuðum voru þetta bara ég og konan mín og við ætluðum að dunda okkur aðeins þarna niður frá. En það var alveg brjálað að gera og það hefur aukist síðan þá.
Það er ákveðin vertíðarstemning sem myndast hérna hjá okkur,“ segir Baldvin spurður hvernig honum og fjölskyldunni líki þetta hlutverk á jóladag. „Það er eldað vel á aðfangadag. Eldað fyrir tíu manns þótt það séu fimm í mat. Svo er það borðað í kvöld. Á Þorláksmessu var soðið hangikjöt sem er líka borðað í kvöld,“ segir hann léttur í bragði.
Hann segir að fyrstu árin hafi röðin verið löng, náð um nánast allan gólfflöt búðarinnar, en með árunum hafi fyrirkomulagið þróast. „Fólk hefur alltaf verið þolinmótt í röðinni, en þetta er farið að ganga miklu betur en fyrst til að byrja með. Röðin var nánast um alla búðina þegar það var bara einn staður til að borga á, en núna erum við með tvo staði til að borga á,“ segir hann.
Beðinn um að nefna einhver dæmi um hvers kyns vandræðum fólk hafi lent í á jóladag nefnir Baldvin konu sem kom í búðina snemma dags eftir að hafa vaknað klukkan fjögur aðfaranótt jóladags og munað eftir að hún átti að sjá um tartaletturnar í jólaboði síðar um daginn.
„Hún hringdi niðureftir og var komin fyrir hádegi. Við náðum að bjarga henni og hún varð guðslifandi fegin,“ segir Baldvin og rifjar upp að annar hafði misst soðið af jólasteikinni í gólfið. „Við náðum að vísu ekki að bjarga honum með hrygg, en hann hefur kannski bjargað sér með einhverjum teningum,“ segir hann.