Afkastamikill dagur í Blóðbankanum

Fjöldi fólks brást við beiðni Blóðbankans um að gefa blóð …
Fjöldi fólks brást við beiðni Blóðbankans um að gefa blóð í dag. mbl.is/Kristín Sif Björgvinsdóttir

Met­fjöldi blóðgjafa lagði leið sína í Blóðbank­ann í dag. Bank­inn óskaði eft­ir blóðgjöf­um eft­ir að al­var­legt rútu­slys varð vest­an við Kirkju­bæj­arklaust­ur um há­deg­is­bil í dag.

„Við send­um ákall til blóðgjafa og höf­um fengið metaðsókn í dag,“ seg­ir Sveinn Guðmunds­son, yf­ir­lækn­ir Blóðbank­ans, í sam­tali við mbl.is.

„Mér sýn­ist að við náum að safna yfir 170 ein­ing­um,“ seg­ir hann. Þegar Blóðbank­inn var opnaður í morg­un voru um 600 ein­ing­ar til í bank­an­um, þar af 350 ein­ing­ar í blóðflokki O, sem nýt­ast til blóðgjaf­ar í slys­inu sem var í dag. Um 450 ein­ing­ar í blóðflokki O eru nú til í Blóðbank­an­um.

Mestu óviss­unni hef­ur verið eytt 

Ákveðið var að hafa opið leng­ur í Blóðbank­an­um í dag, eða til klukk­an 19. Síðustu blóðgjaf­arn­ir höfðu gefið blóð þegar klukk­an var að nálg­ast 20 og seg­ir Sveinn að vel hafi gengið og staðan sé góð.  „Mestu óviss­unni hef­ur verið eytt, en auðvitað eru marg­ir sjúk­ling­ar enn inni sem að eru annaðhvort í aðgerð eða á gjör­gæslu en við fáum þau skila­boð að við séum kom­in út úr mestu óviss­unni.“

Um 50-60 ein­ing­ar hafa verið send­ar á Land­spít­al­ann frá Blóðbank­an­um í dag.

Blóðsöfn­un Blóðbank­ans verður opin á morg­un milli klukk­an 8 og 19, sem er hefðbund­inn tími.

Sveinn seg­ir að dag­ur­inn í dag hafi verið með þeim anna­söm­ustu í Blóðbank­an­um sem hann muni eft­ir. „Við telj­um að við höf­um að minnsta kosti í tvígang safnað meira á sól­ar­hring, en þá byrjuðum við líka snemma dags,“ seg­ir Sveinn. Aug­lýst var eft­ir blóðgjöf­um skömmu eft­ir há­degi í dag, stuttu eft­ir að slysið átti sér stað. „Þetta er alla­vega á topp þrem­ur.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka