Hópslysateymi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands hefur verið virkjað vegna alvarlegs rútuslyss sem varð í nágrenni Klausturs nú skömmu fyrir hádegi. Þetta staðfestir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.
Einnig hefur greiningarsveit frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu lagt af stað austur á vettvang slyssins. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur einnig verið kallað út auk starfsfólks Landspítalans.
Fjöldahjálparmiðstöð hefur verið opnuð af hálfu Rauða krossins í grunnskólanum á Kirkjubæjarklaustri. Heimamenn undirbúa þar komu ómeiddra farþega úr rútunni. Þar verður hlúð að þeim og þeim boðin heit súpa og kaffi.