Þorgerður Anna Gunnarsdóttir
Sveitarstjóri Skaftárhrepps, þar sem alvarlegt rútuslys varð í mikilli hálku í dag, segir miður að svo hafi farið því ítrekað hafi verið bent á hækka þyrfti þann þjónustuflokk sem vegurinn er í.
„Ég er ekki að gagnrýna Vegagerðina fyrir litla þjónustu heldur er ég að benda á að þessi vegur er í lægri þjónustuflokki en vegurinn fyrir vestan okkur,“ segir Sandra Brá Jóhannsdóttir.
Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, G. Pétur Matthíasson, viðurkenndi í samtali við RÚV í dag að vegurinn austan Víkur væri í lægri þjónustuflokki heldur en vegurinn vestan Víkur. Því væru hálkuvarnir minni austan til. Til skoðunar væri að auka þjónustuna austan við Vík um flokk.
Sandra Brá segir að sjálfsögðu gott að skoða eigi málið en segir það löngu tímabært. „Það á að vera búið að breyta þessu fyrir löngu, það er svo langt síðan umferðin varð svona mikil hér allan ársins hring.“
„Auðvitað hlýtur það að verða verkefni samgönguráðherra að ganga í það ef það vantar fjármagn til Vegagerðarinnar til þess að sinna þessum málum. Ég efast ekki um að Vegagerðin hafi óskað eftir slíku fjármagni en nú má þetta ekkert bíða.“
Sandra harmar að oftar en ekki þurfi alvarleg atvik sem þessi svo mál séu tekin til skoðunar. „Ég ætla rétt að vona að þetta verði til þess að við sjáum veginn fara upp um þjónustuflokk núna strax.“