Suðurlandsvegur opnaður á ný

Vegurinn er enn lokaður þar sem slysið varð.
Vegurinn er enn lokaður þar sem slysið varð. Ljósmynd/Jónas Erlendsson

Opnað hefur verið fyrir umferð um þjóðveginn vestan við Kirkjubæjarklaustur þar sem alvarlegt rútuslys varð í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi er rannsókn á slysstað lokið. 

Í kvöld verður áfram hlúð að þeim slösuðu og um þessar mundir er unnið að því að fjarlægja ökutækin af vettvangi svo opna megi veginn. Þetta sagði Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi.

„Á morgun verður áframhaldandi rannsókn á tildrögum slyssins og á þeim gögnum sem safnað var í dag.“

Þyrlur Landhelgisgæslunnar fluttu alvarlega slasaða á Landspítalann.
Þyrlur Landhelgisgæslunnar fluttu alvarlega slasaða á Landspítalann. mbl.is/Árni Sæberg

Tildrög slyssins voru með þeim hætti að rútan hafnaði aftan á fólksbifreið með þeim afleiðingum að rútan fór út af. Mikil hálka var á veginum og bratt niður af honum þar sem slysið varð.

Tugir farþega voru í rútunni, en þeir voru kínverskir ferðamenn. Kona á þrítugsaldri lést á vettvangi slyssins, auk þess sem fjöldi fólks var fluttur alvarlega slasaður á Landspítalann með þyrlum Landhelgisgæslunnar. Þeir sem slösuðust minna voru fluttir í fjöldahjálparstöð á Kirkjubæjarklaustri fyrst um sinn en fengu síðar læknisskoðun á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Bílstjóri rútunnar var íslenskur og mun hann hafa slasast og liggur nú á gjörgæslu. Fjöldi manns kom að björgunaraðgerðum á svæðinu, þ.á m. lögregla, slökkvilið, sjúkraflutningamenn, björgunarsveitarmenn og Rauði krossinn.

Gulu viðbragðsstigi var lýst yfir á Landspítalanum.
Gulu viðbragðsstigi var lýst yfir á Landspítalanum. mbl.is/Árni Sæberg

Dagarnir milli jóla og nýárs eru þekktir álagsdagar á heilbrigðisstofnunum landsins en gulu viðbragðsstigi var lýst yfir á Landspítalanum vegna slyssins, auk þess sem fleiri heilbrigðisstofnanir voru í viðbragðsstöðu.

Landsmenn brugðust fljótt við auglýsingu Blóðbankans um blóðgjafa í O-flokki, en þar var fullt út úr dyrum þar til lokað var kl. 19. Venjulega er aðeins opið til kl. 15 á miðvikudögum.

Nú er unnið að því að opna Þjóðveg 1, en á meðan er opið um hjáleið um Meðalland.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert