Rautt viðbúnaðarstig er á Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu) á Selfossi vegna rútuslyssins sem varð við Kirkjubæjarklaustur rétt fyrir hádegi í dag, en allt heilbrigðisstarfsfólk stofnunarinnar hefur verið kallað á vakt.
44 kínverskir ferðamenn voru í rútunni auk bílstjóra og farastjóra, en einn ferðamannanna lést á vettvangi. Tólf voru fluttir alvarlega slasaðir á Landspítalann með tveimur þyrlum Landhelgisgæslunnar skömmu eftir hádegi.
Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, segir viðbragðsáætlun spítalans hafa gengið upp í dag. Útkallskerfi hafi t.a.m. virkað sem skyldi.
„Þetta gekk vel, en höggið var mikið. Við erum með um hundrað prósent nýtingu á rúmum allt árið og rúmlega það á þessum árstíma eins og þekkt er. Að fá inn tólf mikið slasaða einstaklinga er mikið högg,“ segir Ólafur, en bendir á að miklu máli geti skipt að upplýsingar um slys og slasaða berist fljótt og örugglega til spítalans. Þá náist frekar að rýma bráðamóttöku og aðrar viðeigandi deildir spítalans.
„Sjúklingarnir eru í misalvarlegu ástandi, en nokkrir mjög alvarlega slasaðir, því miður. Það er hlúð að þeim og þeir sem eru mest slasaðir eru ýmist á gjörgæsludeildum eða skurðdeildum. Okkar fólk vinnur hörðum höndum að því að hlúa að þessu fólki,“ segir Ólafur, en flestir hinna mest slösuðu eru tiltölulega ungt fólk.
Hann bendir á að Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafi borið hitann og þungann af fjölda sjúklinganna og mati á alvarleika áverka þeirra. „Þetta gekk mjög vel og þau náðu að sinna þessu verki gríðarlega vel, þannig þeir sem voru mest slasaðir komu til okkar,“ bætir hann við.
Um klukkan 16.15 lenti þriðja þyrla Landhelgisgæslunnar á Selfossi með tíu slasaða farþega úr rútunni, níu fullorðna og eitt barn. Áverkar þeirra voru taldir minniháttar, þ.e. beinbrot og/eða skrámur eða annað slíkt en ástæða þótti til að flytja þá með þyrlu á Selfoss.
Unnið er að flutningi þeirra 23 sem eftir urðu í fjöldahjálparstöð Rauða krossins á Kirkjubæjarklaustri á Selfoss. Áverkar þeirra eru minniháttar. Von er á þeim á sjúkrahúsið nú fyrir kvöldmat.
„Allir koma gegnum sjúkrahúsið hjá okkur í dag og við væntum þess að geta útskrifað sem flesta í kvöld. Þá verður komin rúta frá ferðaþjónustufyrirtækinu sem þeir ferðuðust með sem mun ferja fólk aftur í bæinn,” segir Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSu.
Einhverjir farþeganna sem hlutu minniháttar áverka eru ástvinir þeirra sem slösuðust alvarlega og eru nú á Landspítalanum. Áhersla verður lögð á að koma þessum einstaklingum til ástvina sinna á Landspítalanum.