Ekki hafa eins margir slasast alvarlega í einu slysi hér á landi á þessari öld og í hópslysinu í gær þegar rúta með 44 kínverska ferðamenn fór út af þjóðveginum vestan við Kirkjubæjarklaustur. Tólf voru fluttir alvarlega slasaðir með þyrlum Landhelgisgæslunnar á Landspítalann og 35 voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Einn farþeganna er látinn en það var kínversk kona á þrítugsaldri.
Allar heilbrigðisstofnanir á Suðurlandi voru í viðbragsstöðu frá Hveragerði og Þorlákshöfn að Hvolsvelli í gær og allt slökkvilið frá Selfossi, Hvolsvelli, Vík og Klaustri var kallað út. Þá var óskað eftir aðstoð frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu sem mannaði slökkvistöðvar á Selfossi og Hvolsvelli auk þess sem bílar voru sendir á slysstað.
Styrmir Sigurðsson, yfirmaður sjúkraflutninga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands, segist í samtali við mbl.is ekki muna eftir eins miklum fjölda alvarlega slasaðra á landi og í gær.
„Þetta er mjög stórt á hvaða mælikvarða sem er og með því stærra sem ég man eftir,“ segir Styrmir.
Styrmir var um borð í TF-LÍF þegar hún lenti á slysstað rétt rúmlega 12 í gær. „Á þeim tíma voru bráðaflokkaðir átta rauðir, sem reyndust síðan vera níu, og þrír gulir,“ segir Styrmir en rauður stendur fyrir alvarlega slasaða en gulur fyrir slasaða.
„Fyrst á vettvang voru hjúkrunarfræðingur og varðstjóri frá Kirkjubæjarklaustri og þau voru búin að bráðaflokka vel þegar við mætum á vettvang. Þá var búið að nýta rútur frá ferðaþjónustuaðilum til að flytja alla græna, sem gátu gengið, af slysstað,“ segir Styrmir en 33 voru fluttir á fjöldahjálparstöð á Klaustri.
Minna slasaðir voru fluttir til aðhlynningar og skoðunar á HSu, sem létti mjög á álaginu á Landspítala að sögn Styrmis. Styrmir segir það hafa skipt miklu máli að önnur þyrla Gæslunnar hafi verið við æfingar við Vestmannaeyjar í gær þar sem viðbragðstíminn hafi fyrir vikið orðið mun styttri en ella. Hann vill að ráðamenn skoði möguleikann á að hafa þyrlu á staðarvakt á Suðurlandi til að flýta fyrir sjúkraflutningum.