Héraðsdómur hafnar kröfu Ólafs

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Golli

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu Ólafs Ólafssonar athafnamanns um að fella úr gildi úrskurð endurupptökunefndar sem komist hafði að þeirri niðurstöðu að ekki væri efni til þess að endurupptaka Al Thani-málið svokallaða þar sem Ólafur var sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun.

Ólafur höfðaði mál gegn embætti ríkissaksóknara og íslenska ríkinu í júní 2016. Hann krafðist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður endurupptökunefndar frá 26. janúar 2016 þar sem hafnað var beiðni hans um endurupptöku Al Thani-málsins, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 12. febrúar 2015. Þá krafðist Ólafur málskostnaðar.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem sýknaði í dag bæði ríkið og ríkissaksóknara, að í öndverðu hefði Ólafur einnig krafist að viðurkennt yrði að skilyrði endurupptöku hæstaréttarmálsins væru uppfyllt. Ríkið og ríkissaksóknari kröfðust frávísunar málsins í heild sinni. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2017 var fallist á að vísa viðurkenningarkröfunni frá dómi en frávísunarkröfu stefndu var að öðru leyti hafnað. Með dómi Hæstaréttar Íslands 16. mars 2017 var frávísun viðurkenningarkröfunnar staðfest.

Einn af fjórum sem voru ákærðir 2012

Ólafur var í febrúar 2012 ákærður ásamt þremur fyrrverandi stjórnendum Kaupþings, þeim Hreiðari Má Sig­urðssyni, Sig­urði Ein­ars­syni og Magnús­i Guðmundssyni. Í ákærunni var Ólafi aðallega gefin að sök hlutdeild í umboðssvikum og markaðsmisnotkun, en til vara hylming og peningaþvætti, vegna sölu Kaupþings banka á eigin hlutum til félags í eigu fjárfestis frá Katar, Sheikh Mohamed Bin Khalifa Al Thani.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2013 var Ólafur sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákærunni. Dómi héraðsdóms var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Með dómi réttarins 12. febrúar 2015 var Ólafur sýknaður af sakargiftum um hlutdeild í umboðssvikum, hylmingu og peningaþvætti. Hann var aftur á móti fundinn sekur um hlutdeild í markaðsmisnotkun og fyrir markaðsmisnotkun. Hann var dæmdur til fjögurra og hálfs árs fangelsisvistar og til að greiða þrjá fjórðu hluta sakarkostnaðar.

Krafðist endurupptöku í maí 2015

Ólafur fór þess á leit við endurupptökunefnd með bréfi 15. maí 2015 að málið yrði endurupptekið hvað hann varðaði og tekið til meðferðar og dómsuppsögu að nýju.

Með bréfi endurupptökunefndar frá 20. maí 2015 var Ólafi tilkynnt um móttöku beiðninnar og að tveir af þremur nefndarmönnum hefðu vikið sæti í málinu sökum vanhæfis. Í stað annars þeirra, Björns. L. Bergssonar, formanns nefndarinnar, tók varamaður hans, Kristbjörg Stephensen, sæti. Með bréfi 28. maí 2015 krafðist Ólafur þess að Kristbjörg viki einnig sæti vegna vanhæfis. Krafan var byggð á því að Kristbjörg væri tengd Björgu Thorarensen nánum vináttuböndum, en Björg er eiginkona Markúsar Sigurbjörnssonar hæstaréttardómara, sem var einn dómenda í Al Thani-málinu. Með bréfi 9. júlí 2015 var Ólafi tilkynnt að endurupptökunefnd hefði ekki fallist á kröfu stefnanda og myndi Kristbjörg ekki víkja sæti við meðferð málsins.

Beiðni Ólafs um endurupptöku byggðist annars vegar á því að skilyrði c-liðar 1. mgr. 211. gr., sbr. 215. gr., laga um meðferð sakamála, væri uppfyllt, þar sem niðurstaða Hæstaréttar hefði verið byggð á röngu mati á sönnunargögnum málsins. Hins vegar reisti hann beiðni sína á því að skilyrði d-liðar 1. mgr. 211. gr., sbr. 215. gr. sömu laga, hefðu verið uppfyllt, þar sem tveir dómenda í málinu í Hæstarétti, Árni Kolbeinsson og Þorgeir Örlygsson, hefðu verið vanhæfir til setu í því. Af þeim sökum taldi Ólafur að verulegir gallar hefðu verið á meðferð málsins þannig að áhrif gæti haft á niðurstöðu þess.

Hafnaði endurupptöku í janúar 2016

Endurupptökunefnd sendi embætti sérstaks saksóknara beiðni Ólafs til umsagnar 9. júlí 2015. Sú umsögn, sem var rituð af ríkissaksóknara, barst endurupptökunefnd 12. ágúst 2015 og var hún áframsend til Ólafs með bréfi 14. ágúst 2015. Ólafur setti fram frekari rökstuðning fyrir beiðni sinni með bréfum 31. ágúst 2015 og 5. október 2015. Endurupptökunefnd óskaði einnig eftir umsögn ríkissaksóknara við viðbótarröksemdir Ólafs fyrir endurupptöku málsins og bárust þær umsagnir endurupptökunefnd 17. september 2015 og 21. október 2015. Taldi ríkissaksóknari að hafna bæri beiðni Ólafs þar sem skilyrði endurupptöku væru ekki uppfyllt. Ólafur svaraði þessum umsögnum ríkissaksóknara með bréfum til endurupptökunefndar 5. október 2015 og 26. október 2015.

Á fundi 30. október 2015 var fjallað sérstaklega um þá málsástæðu Ólafs að dómari í málinu hefði verið vanhæfur. Þar var hvorum aðila gefið færi á að reifa sjónarmið sín um atriði máls.

Með úrskurði 26. janúar 2016 hafnaði endurupptökunefnd beiðni stefnanda um endurupptöku hæstaréttarmálsins.

Héraðsdómur féllst ekki á málsástæður Ólafs

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að hvorki hafi verið fallist á málsástæðu Ólafs er lýtur að hæfi Kristbjargar Stephensen né á röksemdir Ólafs fyrir því að hnekkja beri niðurstöðu endurupptökunefndar um að ekki hafi verið leiddar verulegar líkur að því að sönnunarmat Hæstaréttar Íslands í málinu hafi verið rangt.

„Fallið hefur verið frá öðrum málsástæðum stefnanda. Ekki er af hálfu stefndu gerð nein athugasemd um aðild þeirra. Stefndu verða því báðir sýknaðir af kröfu stefnanda um ógildingu fyrirliggjandi úrskurðar endurupptökunefndar,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.

Þá var Ólafur dæmdur til að greiða ríkinu og embætti ríkissaksóknara málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur til hvors þeirra, samtals 1.000.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert