Ekki er að vænta lokaskýrslu frá rannsóknarnefnd samgönguslysa um rútuslysið við Kirkjubæjarklaustur fyrr en eftir ár. Þetta segir Sævar Helgi Lárusson, sérfræðingur hjá rannsóknarnefnd umferðarslysa. Hann segir þó mögulegt að gefin verði út bráðabirgðaskýrsla um tildrög slyssins.
„Við fórum strax á vettvang í gær og rannsökuðum hann. Okkur ber að finna út orsakir slyssins og reynum að skoðum hvort breyta þurfi einhverju til að koma í veg fyrir að sambærilegt slys gerist. Það eru því fyrst og fremst orsakir slyssins sem við erum að reyna að finna út,“ segir hann.
Spurður hvað hafi orsakað slysið við Kirkjubæjarklaustur í gær segir Sævar Helgi það enn vera í rannsókn. „Við getum ekki gefið neitt út enn sem komið er, enda eru ekki öll gögn komin í málið. Það er ekki hægt að segja til um það á þessu stigi máls,“ segir hann.