Þyrluáhafnirnar voru við æfingar

Þyrlur Landhelgisgæslunnar fluttu slasaða rútufarþega á Landspítala.
Þyrlur Landhelgisgæslunnar fluttu slasaða rútufarþega á Landspítala. mbl.is/Árni Sæberg

Á þriðja tug starfs­manna Land­helg­is­gæsl­unn­ar kom að aðgerðum vegna rútu­slyss­ins í ná­grenni Kirkju­bæj­arklaust­urs í gær. All­ar þyrl­ur Land­helg­is­gæsl­unn­ar voru kallaðar út og hef­ur það ekki gerst í ára­tug að all­ar þyrlurn­ar sinni sama út­kalli.

Sveinn H. Guðmars­son, upp­lýs­inga­full­trúi Land­helg­is­gæsl­unn­ar, seg­ir að viðbragð hafi tek­ist vel í gær. „Það eru tvær þyrlu­áhafn­ir mannaðar að staðaldri en þriðja áhöfn­in var mönnuð mönn­um á frívakt,“ seg­ir Sveinn. Þá var áhöfn flug­vél­ar Land­helg­is­gæsl­unn­ar full­mönnuð og í biðstöðu, til­bú­in að varpa út búnaði á slysstað, en ekki þótti ástæða til að kalla hana af stað.

„Til viðbót­ar við okk­ar fólk í flug­deild þá mæddi mikið á stjórn­stöð Land­helg­is­gæsl­unn­ar í gær,“ seg­ir Sveinn en á sama tíma og unnið var að sjúkra­flutn­ing­um frá slysstað í gær strandaði bát­ur í Breiðafirði. Stjórn­stöð Land­helg­is­gæsl­unn­ar stjórnaði og skipu­lagði björg­un báts­ins.

„Þetta er með anna­sam­ari dög­um árs­ins,“ seg­ir Sveinn. „En í heild gekk þetta mjög vel hvað okk­ur snert­ir. Báðar þyrlurn­ar voru við æf­ing­ar þannig það þurfti ekki að kalla áhafn­irn­ar út,“ seg­ir Sveinn en TF-LÍF var við æf­ing­ar á Suður­landi þegar út­kallið barst en TF-SÝN var í Kjós. TF-LÍF tók eldsneyti í Vest­manna­eyj­um og tók upp í þyrluna sjúkra­flutn­inga­mann af Suður­landi áður en haldið var til Klaust­urs en TF-SÝN hélt fyrst til Reykja­vík­ur, sótti þar lækni og menn frá slökkviliðinu á höfuðborg­ar­svæðinu áður en flogið var aust­ur á Klaust­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka