Á þriðja tug starfsmanna Landhelgisgæslunnar kom að aðgerðum vegna rútuslyssins í nágrenni Kirkjubæjarklausturs í gær. Allar þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út og hefur það ekki gerst í áratug að allar þyrlurnar sinni sama útkalli.
Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að viðbragð hafi tekist vel í gær. „Það eru tvær þyrluáhafnir mannaðar að staðaldri en þriðja áhöfnin var mönnuð mönnum á frívakt,“ segir Sveinn. Þá var áhöfn flugvélar Landhelgisgæslunnar fullmönnuð og í biðstöðu, tilbúin að varpa út búnaði á slysstað, en ekki þótti ástæða til að kalla hana af stað.
„Til viðbótar við okkar fólk í flugdeild þá mæddi mikið á stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í gær,“ segir Sveinn en á sama tíma og unnið var að sjúkraflutningum frá slysstað í gær strandaði bátur í Breiðafirði. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar stjórnaði og skipulagði björgun bátsins.
„Þetta er með annasamari dögum ársins,“ segir Sveinn. „En í heild gekk þetta mjög vel hvað okkur snertir. Báðar þyrlurnar voru við æfingar þannig það þurfti ekki að kalla áhafnirnar út,“ segir Sveinn en TF-LÍF var við æfingar á Suðurlandi þegar útkallið barst en TF-SÝN var í Kjós. TF-LÍF tók eldsneyti í Vestmannaeyjum og tók upp í þyrluna sjúkraflutningamann af Suðurlandi áður en haldið var til Klausturs en TF-SÝN hélt fyrst til Reykjavíkur, sótti þar lækni og menn frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu áður en flogið var austur á Klaustur.