Átta metnir hæfastir til héraðsdómara

mbl.is/Ófeigur

Dómnefnd um dómstóla hefur skilað umsögn sinni um umsækjendur um átta embætti héraðsdómara sem auglýst voru til umsóknar í september, en alls barst 41 umsókn.

Guðlaugur Þór Þórðarson, settur dómsmálaráðherra við skipun átta héraðsdómara, hefur sent dómnefndinni bréf þar sem hann óskar eftir frekari rökstuðningi um mat á hæfi umsækjenda. Í bréfinu koma fram athugasemdir setts ráðherra um umsögnina í tíu liðum. Bréfið hefur verið birt á vefsíðu dómsmálaráðuneytisins og það má lesa í heild sinni hér.

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. mbl.is/Hanna

Umsögn dómnefndarinnar er sú að Arnar Þór Jónsson, Ásgerður Ragnarsdóttir, Ástráður Haraldsson, Daði Kristjánsson, Helgi Sigurðsson og Ingiríður Lúðvíksdóttir séu hæfust til þess að verða skipuð í sex embætti dómara með fast sæti við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Þá telur nefndin Pétur Dam Leifsson hæfastan til þess að verða skipaður í embætti með starfsstöð við Héraðsdóm Reykjavíkur en sinna störfum við alla héraðsdómstólana. Bergþóra Ingólfsdóttir þykir nefndinni hæfust til að verða skipuð í eitt embætti dómara sem mun hafa starfsstöð við Héraðsdóm Vestfjarða en sinna störfum við alla héraðsdómstólana eftir ákvörðun dómstólaráðs og jafnframt vera dómstjóri við Héraðsdóm Vestfjarða.

Dómsmálaráðherra vék úr sæti í málinu

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra ákvað að víkja sæti í málinu vegna umsóknar Ástráðs Haraldssonar hæstaréttarlögmanns. Hún taldi fyrir hendi aðstæður sem væru til þess fallnar að umsækjendur gætu dregið óhlutdrægni hennar í efa.

Hún óskaði eftir því við forsætisráðherra að öðrum ráðherra í ríkisstjórn yrði falin meðferð málsins og var Guðlaugur Þór því settur sem dómsmálaráðherra í málinu og sér því um skipan dómaranna.

Sigríður Á. Andersen vék úr sæti í málinu.
Sigríður Á. Andersen vék úr sæti í málinu. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert