Eiríkur Jónsson lagaprófessor krefur ríkið um miskabætur vegna ólögmætra athafna Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra við skipun í embætti landsréttardómara. RÚV greindi fyrst frá málinu en Eiríkur staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
„Það fór bréf með kröfu um miskabætur og viðurkenningu á bótaskyldu vegna fjártjóns á embætti ríkislögmanns í gær,“ segir Eiríkur í samtali við mbl.is. Hann vill að öðru leyti ekki tjá sig um kröfuna. Laun háskólaprófessors eru töluvert lægri en landsréttardómara, en ekki upphæð fylgir þó ekki kröfunni.
Eiríkur er þar með fjórði maðurinn sem krefur ríkið um bætur vegna ákvörðunar ráðherra.
Nýverið krafði Jón Höskuldsson héraðsdómari ríkið um tugi milljóna í bætur vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra að líta fram hjá honum þegar skipað var í embætti dómara við Landsrétt. Hann var í hópi 15 hæfustu umsækjendanna samkvæmt matsnefnd.
Hinn 19. desember sl. sýknaði Hæstiréttur íslenska ríkið af viðurkenningu á skaðabótakröfu við Ástráð Haraldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson í landsréttarmálinu. Ríkið var aftur á móti dæmt til að greiða þeim samtals 1,4 milljónir króna í miskbætur, eða 700.000 kr. til hvors þeirra.
Ástráður og Jóhannes voru á meðal 33 umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt og meðal þeirra 15 sem dómnefnd samkvæmt lögum um dómstóla hafði talið meðal hæfustu til að gegna því embætti.
Þegar dómsmálaráðherra gerði tillögu til Alþingis um þá 15 umsækjendur sem skipa skyldi dómara vék ráðherra frá niðurstöðum nefndarinnar varðandi fjóra umsækjendur, þ.a. þá Ástráð, Jóhannes, Eirík og Jón.