Sævar Freyr Þráinsson, bæarstjóri Akranesbæjar, segist hafa staðið í þeirri trú að niðurrif á sílóum Sementverksmiðjunnar færi fram á nýju ári. Hvorki hann, né bæjarbúum almennt, hafi verið varaðir við framkvæmdinni. „Það var þó greinilega búið að láta lögregluna vita af þessu og einhverja íbúa í nágrenninu,“ segir Sævar.
Greint var frá því fyrr í kvöld að mistekist hefði að rífa niður síló Sementverksmiðjunnar fyrr í dag. Í stað þess að þau hryndu lóðrétt til jarðar fóru þau á hliðina en eru þó að hruni komin. Falli sílóin gæti brak úr þeim þeyst út á nærliggjandi götu, Faxabraut, og hefur hún því verið girt af.
Engin íbúabyggð er í götunni og að sögn Sævars geta íbúar á ferð um svæðið nýtt sér hjáleiðir. Lokunin ætti því ekki að hafa íþyngjandi áhrif á bæjarbúa. Lokunin verður í gildi út 2. janúar, og segir Sævar að framhaldið skýrist þá. „Ég mun boða verktana á minn fund þá.“
Niðurrif sementverksmiðjunnar er nýhafið, en ráðgert er að því ljúki í október á næsta ári. Sævar segist ekki telja að þessi uppákoma setji strik í reikninginn. „Það er nú bara þannig að sumt gengur betur en menn gera ráð fyrir, en annað verr. Og það er lítið hægt að gera í því,“ segir Sævar.
Til stendur að reisa 350 íbúðir á svæðinu sem nú geymir hálfhrunda sementverksmiðjuna.