Brýtur nálgunarbann ítrekað án afleiðinga

Eva segir lögregluna áhugalausa um brot mannsins.
Eva segir lögregluna áhugalausa um brot mannsins. Ljósmynd/Facebook

„Ég fékk loks nóg og hringdi í lög­regl­una í dag. Mér var sagt að koma á virk­um degi og skila inn gögn­um. En ég er bú­inn að senda lög­regl­unni skila­boð meðan þetta hef­ur verið í gangi og ég fæ aldrei svör. Það er eng­in eft­ir­fylgni.“  

Þetta seg­ir Eva Riley Stonestreet sem hef­ur und­an­far­in fjög­ur ár verið áreitt af elti­hrelli á net­inu. Hún deildi sögu sinni í mynd­bandi á Face­book fyrr í dag.

Eins og mbl.is greindi frá í sept­em­ber ná skila­boðin frá sak­leys­is­legu spjalli upp í ástar­játn­ing­ar og loks hót­an­ir. Fimm dög­um eft­ir að málið komst í fjöl­miðla fengu Eva og fjöl­skylda henn­ar nálg­un­ar­bann á mann­inn.

„Lög­regl­an seg­ir mér að um leið og hann hefði sam­band við mig eigi ég að tala við lögg­una og hann yrði hand­tek­inn um leið.“

Eft­ir að nálg­un­ar­bannið tók gildi fékk Eva frí frá mann­in­um í um mánuð en þá fór hann að hafa sam­band á ný. „Hann byrjaði bara aft­ur eft­ir að ég læsti In­sta­gramm­inu mínu,“ seg­ir Eva. Með því gat hann ekki leng­ur séð þær mynd­ir sem Eva set­ur á miðil­inn nema að fá leyfi frá henni.

Þá byrjaði hann að reyna að ger­ast vin­ur Evu á miðlin­um með fölsk­um nöfn­um en hún seg­ist strax hafa áttað sig á hver væri á ferð. Það vind­ur fljótt upp á sig. Stuttu síðar er far­inn að búa til falsk­an aðgang á Face­book og far­inn að hafa sam­band bæði við Evu og mömmu henn­ar. „Hann sagði mömmu að ein­hver ætlaði sér að nauðga hon­um og hann þyrfti að fá að flytja inn til okk­ar,“ seg­ir Eva.

Hún seg­ir það sína til­finn­ingu að lög­regl­an hafi eng­an áhuga á mál­inu. „En af því þetta komst í fjöl­miðla þurftu þeir að gera eitt­hvað til að líta aðeins bet­ur út, en svo er ekk­ert staðið við það,“ seg­ir Eva og vís­ar til þess hve greiðlega gekk að fá nálg­un­ar­bannið í gegn um leið og fjallað hafði verið um málið í fjöl­miðlum.

Eva seg­ist aldrei hafa þekkt mann­inn og ekki einu sinni hitt hann. Áreitni manns­ins fer í dag öll fram í gegn­um netið og seg­ir Eva hann ekki hafa tekið upp á því að koma heim til henn­ar. „En maður veit nátt­úru­lega aldrei því maður­inn er geðveik­ur. Hann er bú­inn að vera inni á geðdeild.“

Hún von­ast til að fjöl­miðlaat­hygl­in dugi til að fá lög­regl­una til að taka á mál­inu. Ekki hef­ur náðst í lög­regl­una á höfuðborg­ar­svæðinu vegna máls­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka