Það sem af er ári hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg sinnt 1.029 aðgerðum. Það er nokkur fækkun frá því í fyrra þegar fjöldi aðgerða var 1.124.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Smári Sigurðsson hjá Landsbjörg, að skaplegra veður á seinni hluta þessa árs hafi haft áhrif á fækkun útkalla. „Það er einfaldlega þannig að þegar það kemur haust- eða vetrarlægð yfir landið með úrkomu og skafrenningi skipta verkefnin tugum yfir landið,“ segir Smári.
Mikil breyting hefur orðið á starfsemi björgunarsveitanna á síðustu árum. Smári segir að ekki sé langt síðan flestar björgunarsveitir hafi lagt skóna á hilluna svo að segja á vorin og tekið aftur til starfa á haustin, því fátt sé um útköll á sumrin.