Skipan dómara tefst fram yfir áramót

Guðlaugur Þór Þórðarson, settur dómsmálaráðherra í málinu.
Guðlaugur Þór Þórðarson, settur dómsmálaráðherra í málinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enn á eftir að skipa átta dómara við héraðsdóma landsins í stað þeirra sem taka nú um áramót sæti í Landsrétti. Til stóð að skipa í sætin fyrir áramót en af því verður ekki. Þetta staðfestir Guðlaugur Þór Þórðarson settur dómsmálaráðherra í málinu.

Matsnefnd skilaði af sér niðurstöðu hæfimats á dögunum og voru átta metnir hæfastir. Guðlaugur hefur sent matsnefndinni bréf þar sem koma fram athugasemdir hans í tíu liðum og hefur hann óskað frekari rökstuðnings nefndarinnar. Ljóst er því að skipan dómara mun eitthvað tefjast. Aðspurður segist hann ekki hafa sett nefndinni sérstakan tímaramma.

„En það eru allir meðvitaðir um það að það er lítill tími til stefnu. Ég á ekki von á öðru en að nefndin bregðist skjótt við og treysti því að þá komi röksemdir með fullnægjandi hætti,“ segir Guðlaugur og bendir á að matsnefndin hafi ekki skilað af sér niðurstöðu til ráðuneytisins fyrr en þremur virkum dögum fyrir áramót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka