Árið sem var að líða er stærsta bílasöluár frá upphafi. 26.226 ökutæki voru nýskráð á árinu 2017 en fyrra met var frá árinu 2007 þegar fjöldi nýskráðra ökutækja var 25.715.
Langstærsti hluti nýskráðra bifreiða voru fólksbílar, eða 21.287, og nam söluaukningin í þeim flokki 15% á milli áranna 2016 og 2017.
Miklar breytingar hafa orðið á sölu bifreiða eftir orkugjöfum. Sala á svokölluðum tengiltvinnbifreiðum, eða Plugin-hybrid, hefur tífaldast á aðeins tveimur árum, úr 139 seldum bílum árið 2015 upp í 1.390 árið 2017. Sala á hreinum rafbílum jókst um 86% milli ára 2016 og 2017 og sala á Hybrid-bifreiðum jókst um 51% milli ára, að því er fram kemur í umfjöllun um þróun bílasölunnar í Morgunblaðinu í dag.