Andlát: Áslaug Brynjólfsdóttir

Áslaug Brynjólfsdóttir
Áslaug Brynjólfsdóttir

Áslaug Brynjólfsdóttir, fyrrverandi fræðslustjóri í Reykjavík, lést á Landspítalanum í Fossvogi á gamlársdag.

Hún var fædd 13. nóvember 1932 á Akureyri, dóttir hjónanna Guðrúnar Rósinkarsdóttur og Brynjólfs Sigtryggssonar. Hún lauk stúdentsprófi frá MA árið 1952 og las síðan heimspeki við Háskóla Íslands. Áslaug var menntaður kennari og sérkennari og lauk mastersprófi í uppeldis- og kennslufræðum.

Árið 1962 hóf Áslaug kennslu við Vogaskóla í Reykjavík og var síðan í nokkur ár framkvæmdastjóri Bóksölu stúdenta. Kom hún svo til starfa við Fossvogsskóla árið 1972. Þar var hún kennari, yfirkennari og loks skólastjóri. Árið 1982 var Áslaug skipuð fræðslustjóri í Reykjavík og var það allt þar til embættið var lagt niður þegar sveitarfélögin tóku við rekstri grunnskólanna árið 1996. Þá fór hún til starfa hjá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var umboðsmaður foreldra og skóla, til ársins 2001. Þá settist hún í stjórn Áslandsskóla og var skólastjóri þar 2001-2002.

Auk þeirrar menntunar sem fyrr er nefnd aflaði Áslaug sér þekkingar á tungumálum, í stjórnun og á sviði skólamála og skrifaði einnig fræðilega um skólamál, einkum á sérsviði sínu sem var samskipti heimilis og skóla.

Á sviði félagsmála lét Áslaug talsvert til sín taka. Hún átti sæti í Menntamálaráði og stjórn Menningarsjóðs um langt skeið, gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir samtök kennara og sat í stjórn Kvenréttindafélags Íslands og starfaði mikið með samtökum kvenna í fræðslustörfum, Delta, Kappa, Gamma. Hún fékk fálkaorðu fyrir störf sín að fræðslumálum árið 1997. Hún var jafnfram mjög virk í starfi Framsóknarflokksins, sat þar í miðstjórn og átti oft sæti á framboðslistum.

Fyrri maður Áslaugar var Guðmundur E. Sigvaldsson (1932-2004) og eignuðust þau fjögur börn; Ragnheiði menntaskólakennara, Birgi stjórnmálafræðing, Gunnar Braga framkvæmdastjóra í fiskeldi í Noregi, og Guðrúnu Bryndísi barna- og unglingageðlæni.

Seinni maður Áslaugar var Jóhann Gíslason. Hann lést árið 2004.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert