Fimm einstaklingar sem lentu í rútuslysinu austan við Kirkjubæjarklaustur síðasta miðvikudag dvelja enn á Landspítalanum, samkvæmt tilkynningu frá spítalanum. Einn þeirra er enn á gjörgæslu.
Fjórir liggja nú á almennum legudeildum Landspítala, en einn einstaklingur sem áður var á gjörgæsludeild hefur verið fluttur yfir almenna legudeild.
Alls voru 44 ferðamenn í rútunni sem valt austan við Kirkjubæjarklaustur og slösuðust margir illa. Allar þrjár þyrlur Landhelgisgæslu Íslands sinntu sjúkraflutningum af slysstað og tólf voru fluttir á Landspítalann. Einn farþeganna lést í slysinu, kínversk kona á þrítugsaldri.
Það mun taka lögregluna á Suðurlandi einhverjar vikur og mögulega mánuði að ljúka rannsókn á rútuslysinu. Oddur Árnason yfirlögregluþjónn segir rannsókn slyssins í fullum gangi. Búið sé að taka flestar skýrslur sem þurfi að taka, m.a. af bílstjórum ökutækjanna tveggja sem hlut áttu að máli og farþegum rútunnar. Enn sé verið að rannsaka ökutæki, blóðsýni og vinna úr gögnum sem aflað var á vettvangi slyssins. „Svo þarf að taka þetta allt saman. Við erum að sjá svona mál taka vikur og jafnvel einhverja mánuði,“ segir Oddur um stöðu rannsóknarinnar.