Vill ríflega 30 milljónir í bætur

Héraðsdómarinn Jón Höskuldsson hefur hafið undirbúning að dómsmáli gegn ríkinu vegna ákvörðunar Alþingis að skipa hann ekki sem dómara við Landsrétt. Jón er einn þeirra fjögurra sem hæfisnefnd lagði til að yrðu skipaðir Landsréttardómarar en voru ekki í tillögu sem Sigríður Andersen dómsmálaráðherra lagði fram í þinginu.

Frétt mbl.is: Krefur ríkið um skaðabætur vegna dómaraskipunar

Fram kemur á fréttavef Ríkisútvarpið að Jón fari fram á ríflega 30 milljónir króna í miska- og skaðabætur vegna málsins en hann sendi bréf til dómsmálaráðherra fyrir jól þar sem krafan var sett fram. Veitur var frestur fram að áramótum til að svara bréfinu en það mun ekki hafa verið gert. Fyrir vikið er undirbúningur hafinn að málsókn.

Byggt er á niðurstöðu Hæstaréttar í desember sem komst að þeirri niðurstöðu að Sigríður hefði brotið gegn stjórnsýslulögum við undirbúning tillögu sinnar til Alþingis þar sem ekki hefði farið fram nægjanleg rannsókn á hæfni þeirra umsækjenda sem sleppt var í samanburði við þá sem í staðinn var lagt til að yrði skipaðir dómarar.

Frétt mbl.is: Dæmdar miskabætur í Landsréttarmálinu

Hæstiréttur dæmdi tveimur umsækjendum sem höfðuðu málið miskabætur vegna þessa upp á 700 þúsund krónur en hafnaði skaðabótakröfu á þeim forsendum að þeir hefðu ekki tekist að sýna fram á með fullnægjandi hætti að þeir hefðu orðið fyrir tjóni. Eiríkur Jónsson lagaprófessor hefur einnig krafið ríkið um bætur vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert