„Það er gaman að sjá að alþjóðlegir fjölmiðlar fylgjast með að lögin eru að taka gildi. Við erum stolt af því að hafa komið þessu máli í gegn og enn spenntari að sjá hvernig því vindur fram,“ segir Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, um lög um jafnlaunavottun sem tóku gildi í upphafi ársins en hann var félags- og jafnréttismálaráðherra þegar þau voru samþykkt. Erlendir fjölmiðlar fjölluðu um gildistöku laganna víða í gær.
Þorsteinn bendir á að frá því lögin voru samþykkt á Alþingi hafa þau vakið talsverða athygli út fyrir landsteinana og ljóst að áfram er fylgst með framgangi málsins. Til að mynda sagði bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders á Facebook í gær að þjóðin þyrfti að „fylgja fordæmi bræðra okkar og systra á Íslandi og krefjast sömu launa fyrir sömu vinnu strax, óháð kyni, uppruna, kynferði eða þjóðerni.“
„Á sínum tíma kom það mér á óvart hversu mikla athygli þetta vakti,“ segir Þorsteinn spurður hvort athygli erlendra fjölmiðla hafi komið honum á óvart. Hann hefur fengið fjölmargar fyrirspurnir um jafnlaunavottunina og meðal annars boð um að halda fyrirlestur á ráðstefnum í útlöndum. Honum stendur til boða að halda erindi á tveimur ráðstefnum í febrúar en hefur ekki enn tekið afstöðu til þess hvort hann komist í það sökum anna.
„Það er gaman að sjá að Ísland hefur vakið athygli fyrir þetta skref. Eins og við sögðum á sínum tíma þá á þetta að vera metnaðarmál fyrir okkur verandi þjóð sem hefur staðið sig vel í jafnréttismálum að halda áfram að hafa metnað til þess að vera í forystu. Það þýðir auðvitað að við þurfum að ráðast á þessar helstu meinsemdir sem enn eru til staðar. Það er fyrst og fremst kynbundinn launamunur og kynbundið ofbeldi sem skiptir langmestu máli,“ segir Þorsteinn.
Jafnlaunavottunin nær til stórs hluta vinnumarkaðarins strax á fyrsta ári og því ætti árangurinn að sjást strax á þessu ári, að sögn Þorsteins. Aðgerðarhópur, stjórnvalda og fulltrúa vinnumarkaðarins um launajafnrétti, er starfandi til að fylgjast með gangi mála. „Það er nýrrar stjórnar að fylgja þessu eftir. Ætli það sé ekki líklegt að þetta verði tekið út á þessu ári eða byrjun næsta árs,“ segir Þorsteinn spurður um eftirfylgni.
Með jafnlaunavottun er fyrirtækjum og stofnunum skylt að sýna fram á að þau greiði jöfn laun fyrir sömu og jafnverðmæt störf. Í lögunum segir að fyrirtæki eða stofnun þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli skal öðlast vottun að undangenginni úttekt vottunaraðila á jafnlaunakerfi fyrirtækisins.