Alvarlegt umferðarslys varð fyrir skömmu í Kollafirði, og miklar tafir á umferð um Vesturlandsveg á næstunni, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.
Um er að ræða árekstur vörubifreiðar og fólksbíls en ekki er vitað um slys á fólki. Fjölmennt lið lögreglu og sjúkrabílar eru á leiðinni á slysstað.
Uppfært klukkan 10:06
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er ekki hægt að veita nánari upplýsingar um slysið að svo stöddu aðrar en að um mjög alvarlegt slys er að ræða. Bæði lögregla og slökkvilið er á vettvangi.
Lokað hefur verið fyrir umferð um Vesturlandsveg við Þingvallaafleggjarann og ekki liggur fyrir hvenær verður hægt að opna fyrir umferð að nýju.
Uppfært klukkan 10:29
Vegna umferðaslyss á Vesturlandsvegi austan við Esjuberg eru miklar umferðatafir og ökumenn beðnir um að sýna þolinmæði. Einnig er ökumönnum bent á hjáleið um Kjósaskarð.
Uppfært klukkan 10:35
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins er búið að flytja slasaða á sjúkrahús.