Hvernig væri að skjótast í nokkrar mínútur frá vinnu út í iðjagræna náttúruna til að hugleiða? Hvað ef við gætum gert það án þess að fara nokkurn tíma út úr húsi? Upp á þetta býður frumkvöðullinn og hugleiðslukennarinn Tristan Elizabeth Gribbin en sprotafyrirtækið hennar Flow hefur skapað einstakan sýndarheim með persónusniðnum hugleiðsluæfingum.
„Margir bögglast með byrðar fortíðarinnar á bakinu á sama tíma og óráðin framtíðin veldur fólki áhyggjum og kvíða. Augnablikið, þessi stund, þetta einstaka andartak, verður uppfylling að áfangastað sem alltaf er á næsta leiti,“ segir Tristan meðal annars í viðtali í Morgunblaðinu í dag, en persónusniðnar hugleiðsluæfingar hennar í sýndarheimi er ætlað að bæta andlega líðan notandans og núvitund hans.