Óörugg á ný í kjölfar aðgerðaleysis

Eva Riley sagði frá því í myndskeiði á Facebook-síðu sinni …
Eva Riley sagði frá því í myndskeiði á Facebook-síðu sinni rétt fyrir áramót að maðurinn væri enn á ný að áreita hana. Lögreglan hefði ekkert aðhafst. Skjáskot/Af Facebook

Eva Riley segir það hafa gefið sér ákveðið öryggi er lögreglan lofaði því að handtaka mann, sem hefur áreitt hana og hótað í fjögur ár, myndi hann hafa samband aftur. Þetta loforð var gefið er Eva og móðir hennar höfðu fengið nálgunarbann á manninn í haust. Hann hefur síðan þá haldið uppteknum hætti og áreitt mæðgurnar með skilaboðum í gegnum netið. Eva hefur tvívegis haft samband við lögregluna eftir að nálgunarbannið tók gildi en segir ekkert hafa verið aðhafst. „Þegar þessu loforði er svo ekki framfylgt þá verður maður óöruggur aftur,“ segir Eva í samtali við mbl.is. „Og ég bara veit ekki hvort að eitthvað af þessu gerir eitthvað gagn lengur því ég er búin að standa í þessu í fjögur ár.“

Er hún hafði samband við lögregluna milli jóla og nýárs, í kjölfar enn einna skilaboðanna frá manninum, var henni sagt að koma á skrifstofutíma. Það voru henni gríðarleg vonbrigði og sagði hún frá því í myndskeiði á Facebook þann 30. desember. Færslunni hefur nú verið deilt rúmlega 900 sinnum. Á gamlaársdag hafði lögreglan svo samband við Evu og bað hana að kæra. Það ætlar hún að gera en mun frekar hefði hún kosið að lögreglan hefði tekið strax á málinu. „Nú veit hann að nálgunarbannið skiptir litlu.“

Metið í hvert skipti

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn getur ekki tjáð sig sérstaklega um mál Evu en segir að almennt séð fari það eftir eðli þeirra skilaboða sem viðkomandi sendir hvort brugðist sé við þegar í stað eða síðar. „Er þetta aðeins ónæði eða hótanir og ef þetta eru hótanir þá hvers konar. Það er því metið í hvert skipti hvað ber að gera samstundis.“

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn.
Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásgeir Þór segir að rannsóknarlögreglumenn séu ekki á vakt allan sólarhringinn en hins vegar sé alltaf hægt að kalla þá út þyki þess þurfa. „Ef málið er ekki þess eðlis að það séu líf og limir í húfi þá getur verið réttlætanlegt að [sá sem brotið er á] hitti rannsóknarlögreglumann og jafnvel þann sem er með málið og þekkir til þess á [afgreiðslutíma rannsóknardeildar].“

Hann bendir á að sé það hins vegar metið svo að viðkomandi sé í hættu sé gripið til ráðstafana strax. Ásgeir vill sem fyrr segir ekki tjá sig um mál Evu sérstaklega hvað þetta varðar. „Það er tekið mjög alvarlega ef fólk brýtur nálgunarbann en í svona netmálum þá þarf fólk að koma með þær sannanir sem það er með á lögreglustöð, skilaboð eða annað.“

Eftir að slíkt hefur verið gert og skýrsla tekin af brotaþola er sá sem brotið hefur nálgunarbannið einnig boðaður í skýrslutöku. „Sé hægt að sanna að um brot á nálgunarbanni sé að ræða endar málið með ákæru.“

Mega ekki hafa samband

Í málum þar sem nálgunarbann er lagt á þá sem fyrst og fremst áreita fólk og hóta í gegnum netið er það tekið fram að þeir megi ekki hafa samband við viðkomandi með þeim hætti. Sé það gert er um brot á nálgunarbanninu að ræða. 

Dæmi um skilaboð sem maðurinn sendi móður Evu í lok …
Dæmi um skilaboð sem maðurinn sendi móður Evu í lok nóvember.

Maðurinn sendi m.a. móður Evu fjölmörg skilaboð í nóvember og desember. Eva hefur bæði læst aðgangi óviðkomandi að Snapchat og Instagram vegna áreitisins en maðurinn hefur komist í kringum það nýverið m.a. með því að nota Snapchat-aðgang þriðja aðila til að senda henni skilaboð. Þannig hefur hann látið hana vita af sér, að hann sé enn að fylgjast með henni.

Eva þakkir manninn ekki neitt og hann hefur enn sem komið er ekki nálgast hana í eigin persónu. Hann glímir við geðræn vandamál.

Þegar hann hóf að ofsækja hana hringdi hann og sendi sms-skilaboð þar sem hann játaði henni ást sína. Hann hélt að þau væru trúlofuð og birti myndir af henni víða. „Svo fór þetta út í það að ég væri að hóta honum og svo fór hann að senda mér ógeðslega hluti og loks morðhótanir. Þegar ég fékk nálgunarbannið þá hafði hann hótað að drepa mig og fjölskyldu mína í heilt ár.“ 

Óttast að áreitið stigmagnist

Hún segist nú óttast að áreitið eigi eftir að stigmagnast, eins og það gerði áður en nálgunarbannið var sett á. Nú segir hún þá öryggistilfinningu sem bannið og loforð lögreglunnar veitti gufaða upp. „Mér finnst ég alls ekki örugg. Þegar lögreglan sagði að hún myndi handtaka hann strax þá gaf það mér öryggi. En það er alveg farið núna. Held reyndar að íslenska þjóðin hafi hjálpað mér meira heldur en lögreglan,“ segir hún og á þar við þá umræðu sem færsla hennar og umfjöllun fjölmiðla um málið hefur vakið.

Maðurinn hefur ekki haft samband við Evu eða aðra úr fjölskyldunni frá því að hún birti færsluna. Hann hafi hins vegar einnig dregið sig tímabundið í hlé eftir sambærilega færslu í september og nálgunarbannið sem sett var á í kjölfarið. „En núna vita fleiri af honum. Ég vona að það hafi áhrif.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert