Margrét Guðnadóttir, veirufræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, lést á Landspítalanum í fyrradag. Hún var á 89. aldursári.
Margrét Guðmunda Guðnadóttir fæddist 7. júlí 1929 í Landakoti á Vatnsleysuströnd. Foreldrar hennar voru Guðni Einarsson, bóndi og sjómaður, og Guðríður Andrésdóttir húsfreyja.
Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1949 og læknisprófi frá Háskóla Íslands 1956. Hún stundaði sérfræðinám í veirufræði hjá dr. Birni Sigurðssyni við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum og stundaði rannsóknir á mænusótt og árangri mænusóttarbólusetningar á Íslandi við rannsóknar- og menntastofnanir í Englandi og Bandaríkjunum. Hún stundaði sérfræðinám í veirufræði við Yale-háskóla á árunum 1958 til 1960.
Margrét starfaði sem veirufræðingur á Keldum frá 1960 til 1969 og síðan sem prófessor í sýklafræði við læknadeild Háskóla Íslands þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 1999. Hún var fyrsta konan sem skipuð var prófessor við Háskólann. Hún kom á fót Rannsóknarstofu Háskólans í veirufræði við Landspítalann árið 1974 og hafði umsjón með starfsemi hennar til ársins 1994.
Margrét rannsakaði meðal annars hæggenga veirusjúkdóma í sauðfé, eðli visnu-mæðiveirusýkingar og gerð bóluefnis gegn þeirri sýkingu. Niðurstöður hennar vöktu eftirtekt í alþjóðlega vísindaheiminum. Hún var sæmd heiðursdoktorsnafnbót við læknadeild Háskóla Íslands árið 2011 fyrir vísindaframlag á sviði veirufræði og greiningar veirusýkinga.
Börn Margrétar eru Guðni Kjartan Franzson, klarinettleikari og tónlistarkennari, og Eydís Lára Franzdóttir, óbóleikari og tónlistarkennari.