Spölur mun hætta að innheimta veggjald í Hvalfjarðargöng síðla sumars, um svipað leyti og fyrirtækið afhendir ríkinu göngin.
Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar, segir að línurnar muni skýrast á fyrstu mánuðum ársins varðandi nákvæmar dagsetningar.
„Verkefninu er lokið. Það er allt uppgert sem samningurinn við ríkið gerir ráð fyrir,“ segir Gísli og á þar við samning Spalar og ríkisins frá árinu 1995. Göngin opnuðu þremur árum síðar, eða 11. júlí 1998.
Spurður hvort ríkið hafi heimild til að innheimta veggjöld í Hvalfjarðargöngin eftir að það tekur við rekstri þeirra segir Gísli að ríkið hafi heimild til að innheimta veggjöld en Jón Gunnarsson, fyrrverandi samgönguráðherra, hafi sagt að það stæði ekki til.
Gísli segir að allt hafi gengið vonum framar við rekstur ganganna og að allt hafi staðist sem að var stefnt. „Við verðum ekki kátir fyrr en allt er klárt og búið en auðvitað hefur umferðin verið mun meiri heldur en við gerðum ráð fyrir í upphafi. Við misreiknuðum okkur þar vissulega en á móti höfum við lækkað veggjaldið jafnt og þétt og núna er það ekki nema brot af því sem var ráðgert í upphafi,“ greinir hann frá.
Hvað hugsanlega tvöföldun Hvalfjarðarganga segir hann það mál vera verkefni ríkisins. „Það blasir við að öryggi í umferð á Kjalarnesi er löngu tímabært verkefni til átaks fyrir ríkið. Það á bæði við um veginn sjálfan og Hvalfjarðargöngin.“
Gísli nefnir að um 7.000 bílar aki á degi hverjum um Hvalfjarðargöng á ári að meðaltali og sú tala fari yfir sumartímann í hátt í 10 þúsund bíla. „Það kallar á að ríkið tryggi besta öryggi vegfarenda á svæðinu.“
Fram kemur á vef Spalar að umferð í Hvalfjarðargöngunum hafi aukist um tæplega 10% í desember frá sama mánuði í fyrra. Þá liggi fyrir að umferðarauking á árinu 2017 nemi um 8,2%.