Undirbúningur fyrir útsendingar Ríkisútvarpsins frá HM í knattspyrnu í Rússlandi gengur vel að sögn Hilmars Björnssonar, íþróttastjóra þar á bæ.
„Við verðum með heljarinnar umgjörð um alla leiki Íslands, bæði hér heima og í Rússlandi. Við verðum með teymi sem fylgir íslenska liðinu eftir allan tímann í Rússlandi. Okkar fólk verður í höfuðstöðvum liðsins og flýgur með því í leiki enda viljum við ekki missa af neinu sem gerist í kringum íslensla landsliðið,“ segir Hilmar um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.
Þessi mikla umfjöllun hlýtur að kalla á aukinn mannskap, eða hvað? „Við erum mjög vel mönnuð hér en það er þó ljóst að við þurfum líklega að bæta við okkur mannskap. Það er í vinnslu.“