Í dag fer fram aðalmeðferð í lögbannsmáli Glitnis HoldCo. ehf. gegn útgáfufélagi Stundarinnar í Héraðsdómi Reykjavíkur. Aðalmeðferð hefst kl. 9:15 og stendur yfir til 14:15, samkvæmt dagskrá dómstólsins.
Lögbannskrafa þrotabús Glitnis, sem sýslumaðurinn í Reykjavík samþykkti þann 16. október í fyrra, laut að fréttaflutningi Stundarinnar og Reykjavík Media, sem byggði á gögnum innan úr fallna bankanum.
Verður tekist á um það í dag hvort lögbann á fréttaflutning upp úr gögnunum skuli halda. mbl.is mun fylgjast með gangi mála í réttarsalnum í dag.
Stutt var til alþingiskosninga er sýslumaður staðfesti lögbannskröfuna, en umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media hafði að miklu leyti snúist um viðskipti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, við Glitni í aðdraganda hruns íslenska fjármálakerfisins haustið 2008.
„Þarna er ekki aðeins vegið að tjáningarfrelsinu, grafið undan stöðu frjálsra fjölmiðla og rannsóknarblaðamennsku, heldur er verið að beita valdi til að koma í veg fyrir að fólk fái upplýsingar sem það á rétt á,“ sagði Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Stundarinnar, í samtali við mbl.is þann 20. október síðastliðinn.
Fjölmargir fordæmdu lögbannið, til dæmis stjórn Blaðamannafélags Íslands. Í yfirlýsingu félagsins þann 18. október sagði að það væri stóralvarlegt mál að leggja hömlur á tjáningarfrelsi í lýðfrjálsum löndum og enn alvarlegra þegar það væri gert í aðdraganda almennra þingkosninga.
Bjarni Benediktsson var einnig óhress með lögbannið. Í viðtali við mbl.is þann 17. október sagði hann að það kæmi sér illa fyrir sig, þar sem menn gætu farið að spyrja sig spurninga um hvort verið væri að þjóna honum með setningu lögbannsins.
„Ég hef aldrei nokkru sinni, eftir öll þessi ár í stjórnmálum, eftir alla þá umræðu sem hefur átt sér stað og allar þær fréttir sem hafa verið fluttar af mér, sem hægt er að telja í hundruðum, látið mér detta í hug að láta skerða tjáningarfrelsi manna eða vega að fjölmiðlafrelsinu til að fjalla um opinberar persónur eins og mig,“ sagði Bjarni.
Hins vegar sagði Bjarni það mjög alvarlegt mál ef gögn hefðu lekið út úr fjármálakerfinu í stórum stíl um fjárhagsmálefni þúsunda Íslendinga.
Málið var þingfest þann 31. október. Röksemdir Glitnis HoldCo fyrir því að lögbannið verði staðfest eru meðal annars þær að forsvarsmenn fjölmiðlanna hafi lýst því yfir að þeir hafi ekki verið búnir að birta allar þær fréttir upp úr gögnunum sem þeir hefðu viljað, þegar lögbann hafi verið sett á notkun gagnanna.
Félagið lítur svo að birting frétta upp úr gögnunum fari gegn ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þá njóti umræddar upplýsingar um viðskiptavini bankans verndar 71. greinar stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs í samræmi við 8. grein mannréttindasáttmála Evrópu.
Glitnir HoldCo ehf. segir frekari birtingu gagna geta mögulega leitt til skaðabótaskyldu félagsins og að útilokað hafi verið að tryggja hagsmuni félagsins og fyrrverandi og núverandi viðskiptamanna þess með öðrum hætti en lögbanni.
Lögmenn Stundarinnar og Reykjavík Media kröfðust sýknu í greinargerð sinni og sögðu að ljóst væri að lögbannskrafan og aðrar kröfur í málinu væru of víðtækar og brytu enn fremur í bága við tjáningarfrelsisrétt fjölmiðlanna og fjölmiðlafrelsi sem varið væri í stjórnarskrá Íslands, mannréttindasáttmála Evrópu og lögum um fjölmiðla.
Vísuðu lögmennirnir til þess að óskað hafi verið eftir því að lögbannið næði bæði til birtingar umræddra gagna í heild eða hluta og/eða upplýsinga úr gögnunum eða efnislegrar umfjöllunar um þær. Telja fjölmiðlarnir einsýnt að hafna hefði átt lögbanninu frá upphafi og að starfsumhverfi sjálfstæðra fjölmiðla sé ógnað með tilefnislausri málsókn.