Andlát: Sigurður Lárusson skipasmíðameistari

Sigurður Kristján Lárusson
Sigurður Kristján Lárusson

Sigurður Kristján Lárusson, skipasmíðameistari og kunnur knattspyrnumaður á árum áður, lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri síðdegis í fyrradag, miðvikudaginn 3. janúar, 63 ára að aldri.

Sigurður hafði ekki kennt sér meins fyrr en hann veiktist skyndilega aðfararnótt miðvikudagsins.

Sigurður fæddist á Akureyri 26. júní 1954. Foreldrar hans voru Sigrún Guðný Gústafsdóttir og Lárus Marteinn Marteinsson. Eiginkona Sigurðar er Valdís Ármann Þorvaldsdóttir.

Sigurður lærði skipasmíði í Slippstöðinni á Akureyri og starfaði þar en hjá Skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts og síðar Henson, á meðan fjölskyldan bjó á Akranesi þar sem hann lék knattspyrnu með ÍA um árabil. Eftir að Sigurður, Valdís og börnin fluttu til Akureyrar á ný starfaði Sigurður við smíðar í Vör hf, þvínæst í eigin fyrirtæki, Trévís, og síðan hjá Slippnum – Akureyri í nokkur ár til dauðadags.

Börn Sigurðar og Valdísar eru Lárus Orri, Sigurlína Dögg, Kristján Örn og Aldís Marta. Þrjú barnanna fetuðu í fótspor föðurins á knattspyrnuvellinum; Lárus Orri og Kristján Örn eru báðir fyrrverandi landsliðsmenn, og voru lengi atvinnumenn erlendis, og Aldís Marta varð Íslandsmeistari með Þór/KA árið 2012. Barnabörn Sigurðar og Valdísar eru átta.

Sigurður lék knattspyrnu í meistaraflokki með Íþróttabandalagi Akureyrar 1971 til 1974, Þór á Akureyri 1975 til 1978 og Íþróttabandalagi Akraness 1979 til 1988. Með ÍA varð Sigurður Íslandsmeistari 1983 og 1984, bikarmeistari 1982, 1983, 1984 og 1986. Hann var fyrirliði ÍA í nokkur ár og lykilmaður í vörn. Sigurður var spilandi þjálfari síðasta árið sem leikmaður ÍA og þjálfaði liðið einnig 1989. Sigurður lék með Þór á Akureyri á ný 1990 og tók síðan við þjálfun liðsins. Síðar meir þjálfaði hann einnig Völsung í eitt ár og KA í eitt ár.

Sigurður lék 11 sinnum með landsliði Íslands frá 1981 til 1984.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka