Framkvæmdir vegna endurbóta á Sundlaug Sauðárkróks eru að hefjast en í verkinu felst endurgerð á núverandi laugarhúsi, jafnt að utan sem innan, og breytingar á skipulagi innanhúss.
Aðalverktaki verksins er K-Tak ehf. og hljómar verksamningurinn upp á 332 milljónir króna. Verkinu skal að fullu lokið 15. ágúst á næsta ári, að því er kemur fram á vef Skagafjarðar.
Á fyrstu hæð verður anddyri, snyrting fyrir hreyfihamlaða, gangrými, lyfta og aðstaða starfsmanna. Vesturhluti núverandi kvennaklefa á jarðhæð verður óráðstafaður og gufubaðið í suðurenda jarðhæðar verður að mestu óbreytt.
Á annarri hæð verður útbúinn kvennaklefi og blautgufa í austurhluta hússins en karlaklefi í vesturhlutanum.
Breytingar á ytra byrði hússins felast meðal annars í breyttri glugga- og hurðasetningu, niðurrifi á núverandi anddyrisbyggingu við norðaustur-horn. Húsið verður einangrað, klætt með múrklæðningu og málað.
Loka þarf sundlauginni á hluta verktímans en reynt verður að halda lokunum í lágmarki.
Framkvæmdin er 1. áfangi í endurbótum á sundlauginni. Í 2. áfanga er gert ráð fyrir viðbyggingu setlauga og rennibrauta.