„Söfnunin fór fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Örn Ragnarsson, sviðsstjóri í fatasöfnun Rauða kross Íslands.
Á nýliðnu ári safnaði og flokkaði starfsfólk og sjálfboðaliðar Rauða krossins tæplega 3.200 tonn af notuðum fatnaði og efni. Meginhluti þess var seldur úr landi eða 3.078 tonn sem er 360 tonnum meira en á árinu 2016.
Fatasöfnunin hefur vaxið hröðum skrefum síðustu ár. Ef litið er aftur til ársins 2010 hefur magnið þrefaldast. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag nefnir Örn mögulegar skýringar á því. Fatasöfnunarkerfi Rauða krossins sé sífellt að batna og vel haldið utan um grenndargámana. Þá hafi vitneskja almennings aukist um að verðmæti séu í öllum textíl. Þótt fatnaður eða efni sé ekki tískuvara geti það nýst Rauða krossinum.