Brynjar snýr aftur á Facebook

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar að snúa aftur á Facebook á næstu dögum. Þetta gaf Brynjar út í ræðu á jólahlaðborði Sambands ungra Sjálfstæðismanna í gær og staðfesti í samtali við mbl.is. „Ég er að vísu ekki búinn að koma því í verk en úr því að ég gaf loforðið verð ég að standa við það,“ segir Brynjar. 

Brynj­ar ákvað að hætta á Face­book „af heilsu­fars­ástæðum“ um miðjan nóvember á síðasta ári. Sagði hann að sam­skipti á sam­fé­lags­miðlin­um væru vandmeðfar­in og að kímni­gáfa og skop­skyn fólks væri mjög mis­mun­andi. Viðbrögð fólks gætu verið harkaleg og jafnvel ógeðfelld.

Aðspurður segir Brynjar að ástæðan að baki endurkomunni sé að hann geti ekki bitið í tunguna á sér endalaust. 

„Maður hefur svo margt að segja. Svo er þetta einfaldari leið til að tjá sig en að skrifa greinar sem birtast tveimur dögum síðar þegar umræðan er orðin súr. Hlutirnir í dag þurfa að gerast strax.“

Spurður hvort hann eigi von á því að umræðan verði ekki jafnharkaleg segist hann búast við að svo verði áfram. Brynjar segir þó að það hafi verið glettilega auðvelt að vera án Facebook. „Maður skiptir bara í annan gír og hugsar ekkert meira um það.“

Hann á von á því að endurkoman verði í vikunni og ætlar hann að reyna að endurvekja gamla Facebook-aðganginn frekar en að stofna nýjan. „Ég þarf sjálfsagt aðstoð við það eins og allt annað.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert