Grenjandi rigning í kortunum

Búast má við vatnavöxtum á Austfjörðum.
Búast má við vatnavöxtum á Austfjörðum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Tvenn skil fara yfir landið í dag og verður víðast hvar úrkoma af einhverju tagi. Þegar líður á daginn má búast við stífum vindi og grenjandi rigningu á höfuðborgarsvæðinu. 

„Fram yfir hádegi má búast við hvössum vindi og skafrenningi fyrir norðan. Síðan dregur úr snjókomunni en áfram má búast við einhverjum skafrenningi,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. 

Veðurvefur mbl.is.

Mikil úrkoma verður á Suðausturlandi og Austfjörðum og má búast við miklum vatnavöxtum þar. Á Austfjörðum hefst dagurinn með snjókomu sem síðan snýst í talsverða rigningu. 

Á höfuðborgarsvæðinu mun draga úr vindi með morgninum og verður þokkalegt fram yfir hádegi. „Þá bætir aftur í vind og úrkomu þannig að seinni partinn má búast við stífum vindi og grenjandi rigningu,“ segir Helga og bætir við að í kvöld dragi úr vindi og stytti upp. 

Á Vestfjörðum er ófært eða þungfært á flestöllum leiðum. Þar er víða blint vegna snjókomu, aðallega skafrennings, fram að hádegi. Svo dregur úr ofankomu eftir hádegi í stutta stund en bætir aftur í síðdegis. Þá hlýnar og snjókoman verður að slyddu sem síðan verður að rigningu. Seinni partinn styttir upp. 

Uppfært kl. 11.58 með nýjum viðvörunum Veðurstofunnar:

Miklir umhleypingar eru í veðrinu þessa dagana. Suðaustan hvassviðri og sums staðar stormur í dag, hvassast síðdegis og hlýnar í veðri. Víða vætusamt og talsverð eða mikil rigning um landið suðaustanvert síðdegis. Veðrið gengur niður um landið vestanvert þegar líður á kvöldið. Lítil lægðarbóla myndast yfir landinu í nótt með rigningu eða snjókomu bæði á Suðurlandi og síðar einnig á Norðurlandi í fyrramálið og má búast við vestan stormi norðaustantil á landinu um tíma á morgun. Gengur niður eftir hádegi, en næsta veður nálgast hratt með suðaustan hvassviðri eða stormi annað kvöld með talsverðri rigningu. Því má víða búast við hálku á vegum.

Hér fyrir neðan má sjá kort sem sýnir úrkomu á landinu og hægt er að skoða þróun hennar næstu klukkustundir með því að færa til stikuna neðst.

 

Vegagerðin vekur athygli á eftirfarandi upplýsingum:

Vakin er athygli á aukinni hálku á vegum þegar hlýnar í dag, einkum á langleiðum og fáfarnari vegum. Hvessir síðdegis og hviður verða undir Hafnarfjalli, allt að 35 m/s, einkum frá kl. 16-19. Einnig á norðanverðu Snæfellsnesi um og eftir kl. 18-19.

Súðavíkurhlíð verður áfram lokuð vegna snjóflóðahættu. 

Færð og aðstæður á vegum:

Suðvesturland: Hálkublettir eru víða á Reykjanesi.

Suðurland: Hálka eða snjóþekja. Éljagangur er á Mosfellsheiði. Flughálka er á milli Selfoss og Stokkseyrar.

Vesturland: Hálka, snjóþekja og þæfingur. Snjókoma og éljagangur allvíða. Stórhríð er á Útnesvegi.

Vestfirðir: Ófært eða þungfært er á flestöllum leiðum, mokstur verður skoðaður um kl. 12:00. Lokað er um Súðavíkurhlíð. Þæfingur og hálka er á Innstrandavegi.

Norðurland: Hálka eða snjóþekja og skafrenningur á flestum leiðum. Þæfingur og éljagangur á Hólasandi.

Austurland: Hálka eða snjóþekja er á flestöllum leiðum, skafrenningur og éljagangur á fjallvegum.

Suðausturland: Hálka og snjóþekja. Þæfingur er á Breiðamerkursandi en þæfingur og stórhríð í Eldhrauni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert