Borgarlína sem er heiti á nýju kerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu kostar hvert heimili á svæðinu 1-2 milljónir kr., að því er Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, hefur reiknað út.
Ef tap verður á rekstri borgarlínunnar gæti þáttur hvers heimilis í því numið tugum þúsunda til viðbótar stofnkostnaðinum á hverju ári, um ókomin ár, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag
Niðurstaða Frosta er að fólk gæti þurft að fórna margra mánaða vinnu í borgarlínuna. Gagnrýnin kemur fram í grein á vef hans, frostis.is. Frosti segir að borgarlínan muni ekki spara fólki tíma heldur muni hún sólunda tíma allra íbúa á svæðinu, hvort sem þeir nota hana eða ekki. Þeir sem ferðast með borgarlínu verði að meðaltali 15-20 mínútum lengur að komast leiðar sinnar en þeir sem ferðast í rafbíl.