Guðlaugur Þór Þórðarson, settur dómsmálaráðherra, veltir því upp í bréfi sem hann sendi dómsmálaráðherra og allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis, hvort ekki séu efni til að breyta reglum sem um veitingu embætta dómara gilda.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hafði áður lýst því yfir opinberlega að ætlun hennar væri að gera það.
Guðlaugur skipaði í dag átta héraðsdómara sem taldir voru hæfastir samkvæmt mati dómnefndar sem fjallar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti á grundvelli dómstólalaga.
Í bréfi Guðlaugs kemur fram að ráðherra þurfi, ef hann geri tillögu til Alþingis um að víkja frá umsögn dómnefndar við skipun dómara, að reisa ákvörðun sína á sjálfstæðri rannsókn. Það þurfi að gerast á innan við tveimur vikum frá því ráðherra fær umsögn nefndar í hendur.
Auglýsing fyrir dómarastöðurnar var birt 1. september í fyrra og rann umsóknarfrestur út 18. september. Dómnefnd átti að skila umsögn sex vikum síðar í síðasta lagi. „Nefndin skilaði hins vegar ekki umsögn sinni fyrr en 22. desember 2017, eða rúmum þremur mánuðum eftir að umsóknarfrestur rann út og aðeins þremur virkum dögum áður en hinir nýju dómarar áttu að taka til starfa,“ skrifar Guðlaugur.
Hann segir að þrátt fyrir að hann hafi tvívegis sent tölvupósta til starfsmanns nefndarinnar hafi nefndin látið líða hjá að svara veigamiklum athugasemdum og spurningum ráðherra.
„Settur ráðherra er til að mynda enn engu nær um innbyrðis vægi þeirra sjónarmiða sem lágu til grundvallar mati nefndarinnar. Nefndin svaraði því ekki heldur hvernig umsækjendur stóðu sig í viðtölum og hvert vægi viðtalanna var, þrátt fyrir að hún hafi sérstaklega tekið fram að við matið hafi talsvert verið lagt upp úr viðtölum við umsækjendur. Þá útskýrði nefndin ekki hvernig hið svokallaða „heildstæða mat" hennar fór fram,“ skrifar Guðlaugur.
Dómnefndin hafnaði því að veita Guðlaugi aðgang að skorblaði sem notað var til að grófflokka umsækjendur og þykir honum það sæta furðu.
„Settur ráðherra er því í reynd enn litlu nær um það mat sem fór fram á vettvangi nefndarinnar, þrátt fyrir að hafa í tvígang óskað eftir nánari skýringum. Verður að telja vægast sagt óeðlilegt ef nefndin svarar ekki spurningum ráðherra með greinargóðum hætti, enda gerir það ráðherra erfitt um vik að sinna skyldum sínum sem sá aðili sem fer með skipunarvaldið og lagalega ábyrgð ber á ferlinu, og þá einnig með tilliti til hins skamma frests í dómstólalögunum,“ skrifar Guðlaugur.
Guðlaugur bendir á að hann hefði getað brugðið á það ráð að óska eftir nýrri umsögn nefndar en það var ekki talið æskilegt tímans vegna og hann telur líka að það hefði verið tilgangslaust, miðað við viðbrögð dómnendar við bréfi hans.
Guðlaugur telur því að hann hafi ekki haft neinn annan kost en að skipa þá dómara sem nefndin taldi hæfasta. Annað hefði sett starfsemi héraðsdómstólanna í tímabundið uppnám, enda áttu dómararnir að taka til starfa strax í upphafi nýs árs.
Guðlaugur beinir því til dómsmálaráðherra að hugað verði að nokkrum atriðum. Hann telur að tveggja vikna frestur sem ráðherra er úthlutaður til að framkvæma sjálfstæða rannsókn sé of skammur.
Guðlaugur telur að nefndinni ætti að vera skylt að upplýsa ráðherra um hvað réði mati hennar og afhenda öll vinnugögn en hann telur óeðlilegt ef ráðherra, sem fer með skipunarvaldið, geti ekki átt eðlileg samskipti við nefnd af þessu tagi.
Guðlaugur veltir því enn fremur upp hvort það færi vel á því ef einn til tveir nefndarmenn væru ekki löglærðir. Það myndi auka víðsýni og koma í veg fyrir klíkumyndun í vali á dómara.