Geta ekkert fullyrt um eldsupptök

Húsið í Mosfellsbæ brann nánast til grunna.
Húsið í Mosfellsbæ brann nánast til grunna. mbl.is/Hanna

„Við vitum ekkert um eldsupptök og getum ekkert fullyrt um þau,“ segir Ásgeir Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. Tæknideild fer yfir gögn af vettvangi eldsvoða í Mosfellsbæ og Grafarvogi frá í nótt en húsið í Mosfellsbæ er ónýtt eftir brunann.

Maður var fluttur í lífshættu eftir eldsvoðann í Grafarvogi en hann liggur nú á gjörgæsludeild Landspítalans. Stór hluti hóps­ins sem var flutt­ur á slysa­deild vegna elds­voðanna tveggja í nótt hef­ur verið út­skrifaður en alls voru tólf fluttir á sjúkrahús.

Spurður hvort það verði erfiðara að áætla upptök eldsins í Mosfellsbæ vegna þess að húsið brann nánast til kaldra kola telur Ásgeir það líklegt. „Það er örugglega erfiðara þar. Þetta er nú gamalt hús úr timbri og það er bara brunarústir.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskaði í gær eftir vitnum að manna­ferðum við bæ­inn Star­dal við Þing­valla­veg í Mos­fells­dal vegna rann­sókn­ar henn­ar á bruna íbúðar­húss og úti­húsa, en til­kynnt var um eld­inn kl. 9.59 sl. laug­ar­dags­morg­un.

Ásgeir telur ekki að eldsvoðarnir í Mosfellsbæ tengist en lögregluna grunar ekki að um íkveikju hafi verið að ræða í nótt. „Við höfum enga trú á því að eitthvað svoleiðis hafi verið í gangi í nótt. Við skoðum frekar hinn staðinn um að það sé hugsanlegt, án þess að maður viti það nokkuð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka