„Við horfum beint út um eldhúsgluggann og sjáum bara eldhaf,“ segir Halldór Hrannar Halldórsson, íbúi í Mosfellsbæ, sem horfði á hús nágranna sinna brenna til grunna í nótt. Fimm manna fjölskylda býr í húsinu og tókst þeim að bjarga sér út í gegnum svefnherbergisglugga.
Halldór og foreldrar hans búa í húsinu á móti því sem brann og tóku þau á móti fjölskyldunni þegar henni tókst að yfirgefa húsið.
„Ég var bara inni í herbergi og finn einhverja brunalykt og hélt fyrst að það væri að fara eitthvað rafmagnsdrasl inni hjá mér. Svo byrja ég að þefa í kringum mig og þá kemur lyktin að utan og ég hélt að einhver væri að sprengja flugelda, en svo heyri ég öskur frammi í foreldrum mínum og kíki út um eldhúsgluggann hjá okkur og sé eld koma úr litlum glugga og aðeins úr útidyrahurðinni,“ segir Halldór.
Hann hringdi um leið í Neyðarlínuna. „Ég lít svo upp aftur og þá er allt húsið bara orðið eldhaf, á nokkrum sekúndum.“
Þetta var um klukkan þrjú í nótt og var slökkviliðið komið á staðinn stuttu seinna en þá var húsið orðið alelda. „Húsið fuðraði upp á einhverjum sekúndum,“ segir Halldór.
Mikinn reyk lagði frá húsinu, sem er gamalt timburhús. „Það var svo mikið reykhaf sem kom frá húsinu þar sem það var austanátt að við sáum ekki neitt og sáum ekki fjölskylduna. Við héldum að við værum að horfa á þau öll brenna inni.“ Nokkrum sekúndum síðar sá Halldór fjölskylduna hlaupa að húsinu þeirra, útataða í blóði. „Þau voru náttúrulega bara í sjokki.“ Halldór segir að elsti sonur hjónanna hafi kýlt í gegnum glugga á svefnherberginu sem þau komust út um. Hann hafi hins vegar skorið sig illa á höndunum þegar hann braut gluggann.
Halldór segir mikil og góð samskipti vera á milli íbúa í götunni en að hann hafi voða lítið heyrt af þessari tilteknu fjölskyldu.
Mikil umferð hefur verið við húsið í dag og segir Halldór það vera hálf óraunverulegt að fylgjast með öllu saman. „Maður hálfpartinn trúði því ekki að þetta væri að gerast. Slökkviliðið var að slökkva elda hérna fram eftir morgni og svo hafa gröfur verið að moka í rústunum.“
Ásgeir Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að ekkert sé vitað um eldsupptök að svo stöddu. Húsið er gjörónýtt eftir brunann sem mun mögulega tefja rannsókn á eldsupptökum.