Viss um að Guðlaugur ritaði ekki bréfið

Jakob R. Möller, for­maður dóm­nefndar sem fjall­aði um hæfi umsækj­enda …
Jakob R. Möller, for­maður dóm­nefndar sem fjall­aði um hæfi umsækj­enda um hér­aðs­dóm­ara­emb­ætti. mbl.is/Golli

Jakob R. Möller, for­maður dóm­nefndar sem fjall­aði um hæfi umsækj­enda um hér­aðs­dóm­ara­emb­ætti, er sannfærður um að Guðlaugur Þór Þórðarson, settur dómsmálaráðherra, hafi ekki skrifað bréfið sem hann undirritaði og sendi dómsmálaráðherra og alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd Alþing­is í dag. 

Bréfið sendi hann í kjölfar skipunar sinnar í dag á átta héraðsdóm­urum sem tald­ir voru hæf­ast­ir sam­kvæmt mati dóm­nefnd­ar sem fjall­ar um hæfni um­sækj­enda um dóm­ara­embætti á grund­velli dóm­stóla­laga.

Frétt mbl.is: Gagnýnir dómnefnd harðlega

„Ég er nú eldri en tvævetur og það er ekki mjög algengt að ráðherra setjist niður og skrifi fjögurra síðna bréf, en hann auðvitað leggur meginlínurnar varðandi það,“ segir Jakob í samtali við mbl.is.

Í bréfinu veltir undirritaður því fyrir sér hvort ekki séu efni til að breyta regl­um um veit­ingu embætta dóm­ara gilda. Þá er sett fram ýmis gagnrýni á störf nefndarinnar.

„Að því er varðar gagnrýnina á nefndina virðist að sá sem skrifaði bréfið hafi ekki lesið mjög vandlega reglur 620 frá 2010 um starf dómnefndarinnar,“ segir Jakob og vísar í þá gagnrýni að nefndin hafi skilað mati sínu þremur mánuðum of seint.  

Aug­lýs­ing fyr­ir dóm­ara­stöðurn­ar var birt 1. sept­em­ber í fyrra og rann um­sókn­ar­frest­ur út 18. sept­em­ber. Dóm­nefnd átti að skila um­sögn sex vik­um síðar í síðasta lagi. „Nefnd­in skilaði hins veg­ar ekki um­sögn sinni fyrr en 22. des­em­ber 2017, eða rúm­um þrem­ur mánuðum eft­ir að um­sókn­ar­frest­ur rann út og aðeins þrem­ur virk­um dög­um áður en hinir nýju dóm­ar­ar áttu að taka til starfa,“ segir í bréfinu. 

Nefndin ekki fullskipuð fyrr en um miðjan október

„Nöfn umsækjendanna fékk starfsmaður nefndarinnar 12. október. Nefndin sjálf var ekki fullskipuð fyrr en 13. og það er á allra vitorði að það eru ekki 6 vikur frá 13. október til 30. október. Þetta stendur alveg skýrum stöfum í 9. grein reglnanna,“ segir Jakob.

Þá bendir hann á að í reglunum er sérstök heimild til að fara fram úr þessum sex vikna tíma. „Til dæmis ef umsækjendur eru mjög margir. Það var 41 umsækjandi, það þóttu mjög margir umsækjendur um landsréttarstöðuna, þeir voru held ég 32 eða 33,“ segir Jakob og bendir á að umsækjendur nú séu fleiri en nokkru sinni fyrr. 

Fulltrúi almennings nú þegar í nefndinni

Í bréfinu velt­ir sá sem það skrifar því einnig fyrir sér hvort það færi vel á því ef einn til tveir nefnd­ar­menn væru ekki lög­lærðir. Það myndi auka víðsýni og koma í veg fyr­ir klíku­mynd­un í vali á dóm­ara. Jakob segir að slíkt fyrirkomulag sé nú þegar í nefndinni.

„Ráðherra virðist ekki hafa áttað sig á því að það er einn fulltrúi almennings, kosinn af almenningi, með sama hætti og umboðsmaður Alþingis. Í nefndinni sitja fimm, tveir eru tilnefndir af Hæstarétti, einn af dómstólaráði, einn af Lögmannafélaginu og einn er kosinn á Alþingi. Hann getur verið löglærður og er það núna, en til dæmis í landsréttarmálinu var Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, fulltrúi Alþingis.“  

Jakob segir að augljóst sé að sá sem skrifaði bréfið hafi ekki sett sig mjög vel inn í hvernig reglurnar í raun og veru eru. Hann segir það hins vegar ekkert óeðlilegt að einhver annar en settur dómsmálaráðherra sjálfur skrifi bréfið. „En sá, sem væntanlega er löglærður, hefur ekki haft fyrir því að kynna sér hvernig reglurnar eru í raun og veru.“  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert