Mjög líklega er búið að útvega fjölskyldunni sem missti allt sitt í eldsvoða í Mosfellsbæ í fyrrinótt tímabundið húsnæði í bænum. Þau voru á gistiheimili á vegum Rauða krossins síðastliðna nótt og verða þar aftur í nótt, en geta vonandi fengið húsnæði til umráða á næstu dögum. Þetta segir Nanna Vilhelmsdóttir, nágranni fjölskyldunnar í Mosfellsbæ, sem hafði frumkvæði að söfnun fyrir hana. Hún tekur þó fram að enn eigi eftir að staðfesta þetta endanlega með húsnæðið.
Nanna segir viðbrögðin við söfnuninni í dag hafa farið fram úr björtustu vonum og nú þegar hefur borist sá fatnaður sem vantaði nauðsynlega á börnin og eitt og annað á fullorðna fólkið. Þó vantar konuna enn skó í stærð 41. Nanna segir hana ekki geta gengið á hælum þannig að strigaskór, kuldaskór og lágbotna fínlegir skór væru vel þegnir. Hún er hins vegar búin að fá grófa gönguskó.
Í dag hefur einnig safnast nóg af sængum og koddum, rúmfötum og handklæðum og fjölskyldan þarf ekki meira af því. Þá hafa einhver leikföng borist fyrir börnin og segir Nanna þó alveg mega koma meira af slíku, en þó ekki alveg strax, þar sem fjölskyldan er ekki búin að koma sér fyrir í húsnæði. Nanna segir að væntanlega verði auglýst eftir stærri hlutum, eins og húsgögnum, fyrir fjölskylduna þegar þau hafa fengið aðgang að húsnæði til umráða.
„Það er búið að bjóða ótrúlegustu hluti. Það er alveg ótrúlegt hvað fólk er fallega innrætt. Maður verður svo glaður að upplifa svona. Það svo oft sem allt er neikvætt og ömurlegt en nú streymir flóðbylgja af góðvild og gleði, sem er alveg frábært,“ segir Nanna.
Aðspurð segir hún viðbrögðin við söfnuninni hafa komið sér á óvart, enda setti hún í upphafi aðeins innlegg á lokaða Facebook-síðu fólksins í hverfinu og bauð fram aðstoð sína, ef einhver þekkti til fjölskyldunnar „Ég er er bara í sjokki hérna. Ég þekki þetta fólk ekki neitt, en sagði að ef einhver þekkti til þeirra þá væri ég með barnaföt og smávegis af nauðsynjahlutum sem ég gæti látið af hendi. Svo bara vatt þetta upp á sig og ég hafði samband við Rauða krossinn og bæinn, því ég vissi ekki hver tengiliður fólksins var.“
Það fór svo þannig að Nanna var beðin um að halda utan um söfnunina, meðal annars til þess að það myndi ekki berast of mikið af einhverjum hlutum á meðan annað vantaði. „Ég gerði mér ekki alveg grein fyrir því að þetta yrði svona mikið, en það er bara alveg æðislegt. Það má kannski taka fram að ég hef ekki undan að svara skilaboðum og símtölum. Ég hef því ekki náð að svara öllum.“
Nanna hitti svo konuna og yngstu börnin í dag þegar þau komu að sækja það sem fólk hafði gefið. „Hún átti ekki orð yfir gjafmildinni og fór hjá sér. Sagðist ekki kunna við að taka þessa hluti,“ segir Nanna en svo fékk fjölskyldan líka gjafakort í Bónus til að geta keypt mat. „Þau voru bara gripin, sem er dásamlegt,“ bætir hún við.
„Þau tóku með sér leikföng, útiföt, náttföt og allt þetta nauðsynlegasta í dag. Þau ætla svo að koma öll á morgun í betra tómi. Þau eru ekkert búin að sofa í einn og hálfan sólarhring. Fólk er bara í sjokki,“ segir Nanna sem ætlar að halda utan um söfnunina áfram, að minnsta kosti nokkra daga í viðbót.