Karlmaður á þrítugsaldri var í dag dæmdur sekur fyrir manndráp af gáleysi og dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna banaslyss sem varð við Jökulsárlón í ágúst 2015. Þá var maðurinn sviptur ökuréttindum í hálft ár. Farið hafði verið fram á 3 mánaða skilorðsbundinn dóm og 10 mánaða sviptingu ökuréttinda af hálfu ákæruvaldsins.
Maðurinn var skipstjóri á hjólabát sem var bakkað yfir kanadíska konu við Jökulsárlón í ágúst 2015. Var hann ákærður fyrir „að hafa, síðdegis fimmtudaginn 27. ágúst, ekið hjólabátnum Jaka SF-2223, sem er þiljað farþegaskip, aftur á bak frá farþegapalli og um malarplan norðan við þjónustubygginguna við Jökulsárlón í sveitarfélaginu Hornafirði, án nægjanlegrar aðgæslu þannig að hjólabáturinn hafnaði á gangandi vegfarandanum, Shelagh D. Donovan, f. 13. febrúar 1956, sem féll við og lenti undir hægra afturhjóli ökutækisins með þeim afleiðingum að hún hlaut fjöláverka og lést nær samstundis.“
Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa kom fram að maðurinn hafði ekki réttindi til að stýra bátnum. Þar segir að bakkmyndavél, sem er í öllum slíkum bátum sem sigla á Jökulsárlóni, hafi verið biluð í bátnum og svo hafi verið um nokkurt skeið. Þá hafi hvorki skipstjórinn né annar starfsmaður gengið úr skugga um að hættulaust væri að aka aftur á bak.
Hjónin voru í heimsókn á Íslandi ásamt yngsta syni sínum þegar slysið varð. Þau höfðu ferðast um með þyrlu og stóðu á plani við lónið og fylgdust með þyrlunni lenda þegar bátnum var bakkað á þau. Sonurinn náði að stökkva frá bátnum.
Við aðalmeðferð málsins sagðist maðurinn saklaus og í greinargerð hans með málinu kom fram að hann teldi kanadísku konuna hafa sýnt af sér mikið gáleysi, að samstarfskona hans hefði ekki sinnt skyldu sinni og varað hann við og vinnuveitandi hefði borið ábyrgð á ófullnægjandi öryggisaðstæðum. Maðurinn var ekki viðstaddur dómsuppkvaðningu sem fór fram við Héraðsdóm Reykjavíkur, en aðalmeðferð málsins fór fram við Héraðsdóm Austurlands.