Stjórn og framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar (MAK) hafa tekið ákvörðun um að Jón Páll Eyjólfsson leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar starfi ekki út uppsagnarfrest sinn heldur ljúki störfum nú þegar. Byggist sú ákvörðun á því að ekki ríkir lengur traust um hans störf hjá félaginu.
Þetta kemur fram á vef MAK.
Þar segir ennfremur, að ákvörðunin sé tekin að vel athuguðu máli og einhugur ríki um hana. „Framkvæmdastjóri vinnur nú að nauðsynlegu skipulagi vegna þeirra verkefna sem eru fram undan á vegum LA.“
Jón Páll greindi frá því í færslu á Facebook í desember, að hann hefði sagt starfi sínu lausu frá 1. janúar vegna þess hve lítið fjármagn leikhúsið hefði fengið frá bæjaryfirvöldum á Akureyri. Sagði hann skorta skilning á mikilvægi LA sem hreyfiafls í bæjarfélaginu meðal bæjarstjórnarmanna.
Fréttastofa RÚV segist hafa heimildir fyrir því að uppsögn Jóns Páls tengist #metoo-byltingunni.